Bæjarráð segir Breiðabliki refsað

Leikmenn Breiðabliks.
Leikmenn Breiðabliks. mbl.is

Bæjarráð Kópavogs kom saman til fundar í morgun og var á fundinum meðal annars til umræðu góður árangur knattspyrnuliðs Breiðabliks í Evrópudeildinni. Var árangri liðsins fagnað en um leið undrast bæjarráðið afstöðu Knattspyrnusambands Íslands og segir það refsa liðinu fyrir góðan árangur sinn.

Breiðablik bað um að leik liðsins um verslunarmannahelgina yrði frestað enda var skammur tími milli leiksins og þess í Evrópukeppninni. Liðið lék við Aktobe í Kasakstan á fimmtudegi, flaug beint eftir leik til Frankfurt og var komið þangað 17.30 á föstudagsmorgni. Þá héldu leikmenn og starfsfólk liðsins inn á hótel og reyndu að kreista fram einhvern svefn til 23.00 um kvöldið. Eftir það var haldið aftur út á flugvöll og haldið heim á leið.

Lent var í Keflavík klukkan 15 á íslenskum tíma eða 20 á tímabeltinu sem þeir höfðu verið á. Þá voru 48 klukkutímar í mikilvægan bikarleik gegn Fram. Leik sem Breiðablik tapaði.

„Bæjarráð Kópavogs [...] undrast að ekki hafi verið tekið tillit til óska Breiðabliks um breytt leikjafyrirkomulag. Með því má segja að liðinu hafi verið refsað fyrir góðan árangur,“ segir í ályktun bæjarráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert