Fyrsti bikarsigur Fram í 24 ár

Framarar eru bikarmeistarar karla í knattspyrnu árið 2013. Þeir lögðu Stjörnuna í vítakeppni í úrslitum Borgunarbikarsins á Laugardalsvelli í dag eftir að jafnt var eftir venjulega leiktíma og framlengingu, 3:3. Staðan í hálfleik var 2:0 fyrir Stjörnuna. Í vítakeppninni skoraði Fram úr þremur spyrnum af fjórum en Stjarnan aðeins úr einni af fjórum.

Þetta er í fyrsta sinn í 24 ár sem Framarar verða bikarmeistarar en þeir hafa nú unnið keppnina 8 sinnum. Þá er þetta fyrsti stóri titill félagsins í 23 ár, eða síðan Fram varð Íslandsmeistari árið 1990. Stjörnumönnum mistókst að landa sínum fyrsta stóra titli og þeir máttu sætta sig við að tapa úrslitaleik bikarkeppninnar annað árið í röð.

Stjarnan fékk óskabyrjun þegar dæmd var vítaspyrna á 5. mínútu þegar Kennie Chopart var togaður niður í vítateig Fram. Halldór Orri Björnsson skoraði af miklu öryggi úr vítaspyrnunni, 1:0.

Margir töldu að Framarar hefðu jafnað á 16. mínútu. Hólmbert Aron Friðjónsson skaut í þverslá úr aukaspyrnu og Haukur Baldvinsson náði frákastinu og skallaði að marki Stjörnunnar. Boltinn virtist fara yfir marklínuna en dómarinn var á öðru máli.

Veigar Páll Gunnarsson skoraði síðan annað mark Garðbæinga á 39. mínútu, sérlega glæsilegt mark þar sem Veigar Pall vippaði sallarólegur yfir Ögmund í marki Fram eftir flotta sendingu frá Garðari Jóhannssyni og staðan var 2:0 í hálfleik.

Hólmbert Aron Friðjónsson minnkaði muninn á 52. mínútu með fínu marki eftir sendingu Almarrs Ormarssonar, sem síðan jafnaði metin, 2:2, með skalla á 64. mínútu.

Halldór Orri gerði sitt annað mark á 71. mínútu og kom Stjörnunni í 3:2 þegar hann fékk sendingu inní vítateiginn vinstra megin frá Atla Jóhannssyni.

Almarr jafnaði hinsvegar metin fyrir Fram með sínu öðru marki eftir aukaspyrnu og skalla Hólmberts á 88. mínútu, 3:3, þannig að það varð að framlengja leikinn.

Ekkert var skorað þar og í vítakeppninni varði Ögmundur Kristinsson tvívegis frá Stjörnumönnum og Framarar fögnuðu sigri.

Síðar í kvöld birtast viðtöl við leikmenn og þjálfara liðanna á mbl.is.

Leikskýrslan.

Lið Fram: Ögmundur Kristinsson - Alan Lowing, Jordan Halsman, Kristinn Ingi Halldórsson, Haukur Baldvinsson, Almarr Ormarsson, Viktor Bjarki Arnarsson, Sam Hewson, Hólmbert Aron Friðjónsson, Orri Gunnarsson, Ólafur Örn Bjarnason.
Varamenn: Denis Cardaklija (m), Halldór Hermann Jónsson, Daði Guðmundsson, Jón Gunnar Eysteinsson, Halldór Arnarsson, Aron Bjarnason, Aron Þórður Albertsson.

Lið Stjörnunnar: Ingvar Jónsson - Jóhann Laxdal, Michael Præst, Atli Jóhannsson, Daníel Laxdal, Halldór Orri Björnsson, Veigar Páll Gunnarsson, Robert Johann Sandnes, Kennie Chopart, Garðar Jóhannsson, Martin Rauschenberg.
Varamenn: Arnar Darri Pétursson, Tryggvi Sveinn Bjarnason, Hörður Árnason, Ólafur Karl Finsen, Gunnar Örn Jónsson, Baldvin Sturluson, Snorri Páll Blöndal.

Fram 6:4 Stjarnan opna loka
120. mín. Ögmundur varði vítaspyrnu Halldórs Orra, staðan 3:1 í vítunum fyrir fRam
mbl.is

Bloggað um fréttina