Mikilvægur sigur Blika í Evrópubaráttunni

Sverrir Ingi Ingason með boltann á Kópavogsvelli í kvöld.
Sverrir Ingi Ingason með boltann á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Kristinn

Breiðablik vann mikilvægan sigur á Stjörnunni, 2:1, í baráttunni um síðasta Evrópusætið þegar liðin mættust í frestuðum leik úr 10. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í kvöld. Daninn Nichlas Rohde skoraði sigurmarkið í síðari hálfleik.

Stjarnan skoraði fyrsta mark leiksins á 22. mínútu en það gerði Halldór Orri Björnsson af stuttu færi eftir undirbúning Garðars Jóhannssonar. Blikar vildu meina að Garðar hefði brotið á Renee Troost í aðdraganda marksins og var Ólafur Kristjánsson, þjálfari liðsins, afar ósáttur að það fengi að standa.

Breiðablik hefði átt að jafna metin í fyrri hálfleik þegar Nichlas Rohde lék á Ingvar í markinu og renndi knettinum að auðu markinu. Hörður Árnason elti boltann uppi og bjargaði á marklínu með frábæri tæklingu.

Blikar jöfnuðu þó metin, 1:1, eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik en Guðjón Pétur Lýðsson skoraði þá úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að boltinn fór í hönd Garðars Jóhannssonar í vítateig Stjörnunnar.

Níu mínútum síðar var Breiðablik svo komið yfir, 2:1, þegar Nichlas Rohde skoraði af mikilli yfirvegun eftir frábæran undirbúning Ellerts Hreinssonar, fyrrverandi leikmanns Stjörnunnar.

Stjarnan er áfram í þriðja sæti með 34 stig en Blikar eru nú aðeins tveimur stigum á eftir Stjörnunni og á leik til góða. Aðeins þrjú efstu sætin gefa þátttökurétt í Evrópu þetta sumarið.

Nánari umfjöllun um leikinn verður í Morgunblaðinu í fyrramálið en viðtöl koma inn á mbl.is síðar í kvöld.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu en hana má lesa hér að neðan.

Lið Breiðabliks: (4-3-3) Mark: Gunnleifur Gunnleifsson. Vörn: Þórður Steinar Hreiðarsson, Sverrir Ingi Ingason, Renee Troost, Kristinn Jónsson. Miðja: Finnur Orri Margeirsson, Guðjón Pétur Lýðsson, Andri Rafn Yeoman. Sókn: Nichlas Rohde, Árni Vilhjálmsson, Ellert Hreinsson.
Varamenn: Gísli Páll Helgason, Elfar Freyr Helgason, Olgeir Sigurgeirsson, Arnór Bjarki Hafsteinsson, Viggó Kristjánsson, Jökull I. Elísabetarson, Arnar Már Björgvinsson.

Lið Stjörnunnar: (4-4-2) Mark: Ingvar Jónsson. Vörn: Jóhann Laxdal, Daníel Laxdal, Martin Rauschenberg, Hörður Árnason. Miðja: Ólafur Karl Finsen, Michael Præst, Robert Sandnes, Halldór Orri Björnsson. Sókn: Kennie Chopart, Garðar Jóhannsson.
Varamenn: Arnar Darri Pétursson, Tryggvi Sveinn Bjarnason, Þorri Geir Rúnarsson, Gunnar Örn Jónsson, Baldvin Sturluson, Snorri Páll Blöndal, Darri Steinn Konráðsson.

Breiðablik 2:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Leik lokið +3. Góður sigur Breiðabliks.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert