Trúðu ekki að Ísland gæti jafnað í 4:4

Stephan Lichtsteiner horfir á Íslendinga fagna jöfnunarmarki Jóhanns Berg Guðmundssonar …
Stephan Lichtsteiner horfir á Íslendinga fagna jöfnunarmarki Jóhanns Berg Guðmundssonar í uppbótartíma í gær. AFP

Leikmenn svissneska landsliðsins kenna vanmati um 4:4-jafnteflið gegn Íslandi í undankeppni HM í knattspyrnu í gær þar sem Sviss komst í 4:1 í seinni hálfleik.

„Liðið hætti bara að virka eins og það hafði gert. Við hættum að fylgja andstæðingnum eftir og það var bara Valon Behrami að þakka að það væri þó eitthvað jafnvægi í liðinu. Við hættum bara að spila fótbolta,“ sagði Stephan Lichtsteiner, Ítalíumeistari úr liði Juventus, sem skoraði tvö mörk í gær.

Sviss mætir næst Noregi í Ósló á þriðjudagskvöld á meðan að Ísland tekur á móti Albaníu á Laugardalsvelli.

„Við getum sjálfum okkur um kennt, við eyðilögðum fyrir okkur sjálfum. Menn höfðu ekki trú á að þessi andstæðingur gæti jafnað í 4:4 og við verðum að sýna betra hugarfar. Við lærum af þessu og verðum að spila allan leikinn í Noregi eins og við gerðum fyrsta klukkutímann í þessum leik,“ sagði Lichtsteiner.

Blerim Dzemaili tók í svipaðan streng.

„Svona lagað á ekki að gerast. Við lékum frábærlega þar til við komumst í 4:1 en eins óskiljanlegt og það nú er þá hættum við svo bara að spila. Það verða allir að líta í eigin barm. Kannski vorum við svona öruggir um að vinna. Svona lagað gerist þegar maður vanmetur andstæðinginn,“ sagði Dzemaili en minnti á að Sviss væri enn með fjögurra stiga forskot í riðlinum.

„Staðan er enn góð en hún væri mun betri ef við hefðum unnið. Við verðum að gleyma þessum leik strax og muna að við erum enn með gott forskot.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert