Sögulegt hjá Kristjáni - þakkar syninum

Kristján Finnbogason mátti játa sig sigraðan einu sinni í leiknum …
Kristján Finnbogason mátti játa sig sigraðan einu sinni í leiknum við Víking frá Ólafsvík í dag en hér skorar Eyþór Helgi Birgisson hjá honum undir lok leiksins. mbl.is/Árni Sæberg

Hinn 42 ára gamli Kristján Finnbogason varði mark Fylkismanna í dag þegar þeir lögðu Víking frá Ólafsvík að velli, 2:1, í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta og tryggðu sér með því áframhaldandi sæti í efstu deild.

Þetta var fyrsti leikur Kristjáns á tímabilinu en hann hljóp í skarðið fyrir markvörðinn og fyrirliðann Bjarna Þórð Halldórsson sem gat ekki spilað í dag vegna meiðsla í læri.

Um leið var þetta sögulegur leikur fyrir Kristján en með honum komst hann í þriðja sætið yfir leikjahæstu leikmenn efstu deildar hér á landi frá upphafi. Þetta var hans 268. leikur og þar með komst hann einum leik uppfyrir Keflvíkinginn Sigurð Björgvinsson sem lék 267 leiki fyrir Keflavík og KR á sínum tíma.

„Það er auðvitað fínt. Hvað þarf ég að spila marga leiki enn til að ná efsta sætinu?“ sagði Kristján við mbl.is í léttum dúr eftir leikinn. „Nei, nei, nú lofa ég því að þetta hafi verið síðasti leikurinn minn. En ég hef svo sem sagt það áður!“ sagði Kristján, sem þyrfti að spila hálft þriðja tímabil til að komast í efsta sæti leikjalistans.

Þar trónir Birkir Kristinsson markvörður sem lék 321 leik í deildinni með KA, ÍA, Fram og ÍBV og á eftir honum kemur Gunnar Oddsson sem lék 294 leiki með Keflavík, KR og Leiftri.

Bjarni spilaði meiddur gegn FH og KR

„Bjarni meiddist í leiknum við Breiðablik, fékk þá högg á lærið, rétt fyrir ofan hnéð, og er búinn að vera tæpur síðan, enda þótt hann hafi í millitíðinni spilað leikina gegn FH og KR. Hann hefur bara orðið verri og verri og er ennþá með risakúlu, á erfitt með að beygja hnéð, og gat ekki meir.

Við Bjarni og Ási þjálfari töluðum um þetta í vikunni og þegar ljóst varð á æfingum að Bjarni var ekkert að skána, tókum við í sameiningu þá ákvörðun að ég myndi spila,“ sagði Kristján, sem sýndi í leiknum að hann hefur engu gleymt og varði mjög vel tvívegis undir lok fyrri hálfleiks.

„Já, ég hef verið með á hverri einustu æfingu í töluverðan tíma og reynt að halda mér í lagi. Ég verð samt að þakka syni mínum sérstaklega fyrir „spa-meðferðina“ sem ég fékk hjá honum í gær og á föstudaginn. Hann nuddaði gamla karlinn og gerði allt sem hann gat til að gera hann kláran. Þetta er mest honum að þakka!"

Þetta gekk bara vel, ég náði að verja einhver skot og grípa inní leikinn. Annars var vörnin mjög góð, við töluðum vel saman, og þetta var allt saman í góðu lagi.“

Spilarðu síðasta leikinn um næstu helgi?

„Ég ætla að vona ekki. Við sjáum til hvernig Bjarni verður næstu daga. Það verður þá ég, Bjarni, eða ungur markvörður, Ólafur Íshólm, sem er mjög efnilegur og að komast í gang eftir að hafa verið meiddur í allt sumar. Hann gæti líka spilað leikinn,“ sagði Kristján sem hefur verið markvarðaþjálfari Fylkis undanfarin tvö ár, ásamt því að vera til taks sem varamarkvörður. Í  fyrra lék hann tvo síðustu leiki liðsins í deildinni og gæti því leikið sama leik núna.

En verður hann áfram í röðum Fylkis?

„Samningurinn minn er búinn eftir mótið en báðir aðilar hafa sýnt áhuga á að ræða saman síðar í haust. Ég býst svona  frekar við því,“ sagði Kristján Finnbogason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert