Lagerbäck: Vil ljúka ferlinum á stórmóti

Lars Lagerbäck á fundinum í dag.
Lars Lagerbäck á fundinum í dag. mbl.is/Golli

„Framtíðin í íslenskum fótbolta er mjög björt,“ sagði Lars Lagerbäck við fréttamenn í dag eftir að ljóst varð að þeir Heimir Hallgrímsson myndu stýra karlalandsliði Íslands í knattspyrnu fram yfir Evrópumótið í Frakklandi 2016.

Lagerbäck tók sem kunnugt er við landsliðinu fyrir undankeppni HM 2014 og liðið komst alla leið í umspil þar sem það tapaði fyrir Króatíu á dögunum.

„Ef ég lít tilbaka þá hafa þetta verið tvö góð ár. Landsliðið hefur sífellt verið að taka skref fram á við sem og íslenskur fótbolti. Það hefur verið sérstaklega gott fyrir mig sem þjálfara að sjá liðið verða betra og betra. Jafnvel þó að þetta hafi ekki endað svo vel, og við séum vonsviknir, þá hafa þetta verið tvö mjög góð ár,“ sagði Lagerbäck og á honum var að heyra að ákvörðunin um að halda áfram hefði verið auðveld.

Sambandið við leikmennina aðalástæðan

„Síðan að við Geir [Þorsteinsson, formaður KSÍ], Þórir [Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ] og Heimir hófum viðræður hef ég í raun bara verið jákvæður. Líka vegna sambandsins við leikmennina og þau svör sem við Heimir höfum fengið við því sem við viljum sjá. Það er auðvitað aðalástæðan fyrir því að ég vildi halda áfram þessu starfi,“ sagði Lagerbäck.

„Þegar maður er svona nálægt þessu, og kominn á minn aldur, þá langar mann auðvitað mikið til að enda á lokakeppni stórmóts. Við eigum eflaust fyrir höndum erfiðan riðil þar sem við verðum líklega í 5. styrkleikaflokki en mig langar mikið til að ljúka ferlinum á stórmóti,“ sagði Lagerbäck.

Vita núna hvers er að vænta

Eins og greint hefur verið frá var ekki aðeins gengið frá samningi við Lars og Heimi út EM 2016 heldur mun Heimir svo stýra liðinu fram í lokakeppni HM 2018.

„Það er best að halda stöðugleika og reyna að byggja ofan á það sem gert hefur verið. Til lengri tíma litið held ég að þetta sé mjög góð hugmynd. Leikmennirnir og KSÍ vita núna hvers er að vænta á komandi árum og ég tel að það sé gott,“ sagði Lagerbäck.

Heimir hefur verið aðstoðarmaður Svíans en nú munu þjálfararnir deila ábyrgðinni til jafns.

Engar stórar breytingar á samstarfinu

„Við Heimir höfum unnið mjög vel saman. Ég hef í gegnum tíðina reynt að vinna mjög vel saman með aðstoðarmönnum mínum. Ég var annar af tveimur þjálfurum Svíþjóðar í fjögur ár og því fylgja margir kostir. Það er hins vegar mjög mikilvægt að menn fylgi sömu hugmyndafræði og virki saman sem einstaklingar,“ sagði Lagerbäck.

„Þetta breytir ekki miklu. Við reynum að plana allt saman og skiptum hlutverkum á milli okkar. Það verða engar stórar breytingar að þessu leyti. Heimir mun hins vegar geta eytt meiri tíma í starfið sem er gott fyrir landsliðið og íslenskan fótbolta. Fjögur augu sjá betur en tvö,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert