Gylfi Þór: Mikill og óvæntur heiður

Gylfi Sigurðsson, íþróttamaður ársins 2013, með verðlaunagripinn.
Gylfi Sigurðsson, íþróttamaður ársins 2013, með verðlaunagripinn.

„Þetta er mikill og óvæntur heiður fyrir mig. Mér þykir vænt um að hljóta þessa viðurkenningu,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, íþróttamaður ársins 2013, þegar mbl.is sló á þráðinn til hans í kvöld eftir að upplýst var um kjörið í hófi Samtaka íþróttfréttamanna í Gullhömrum.

„Ég bjóst ekki við við að verða valinn þótt gengi íslenska landsliðsins hafi verið frábært á þessu ári. Við vorum stutt frá því að takast hið ómögulega, það er að komast á lokakeppni HM. En það stóðu margir íþróttamenn sig afar vel á þessu ári, meðal annars Aníta Hinriksdóttir. Hún er ung á framtíðina fyrir. Sannast sagna þá átti ég von á að einhver annar en ég yrði fyrir valinu að þessu sinni,“ sagði Gylfi.

„Þetta ár hefur verið gott. Ég hef leikið meira en ég gerði tímabilið á undan. Mér persónulega hefur vegnað vel, bæði með félagsliði mínu og landsliðinu. Þegar ég lit til baka hefur árið í heild verið mjög gott,“ sagði Gylfi sem taldi þó kannski ekki að um væri að ræða sitt besta ár á ferlinum til þessa.
„Mér gekk einnig afar vel síðasta árið mitt með Reading áður en ég gekk til liðs við Hoffenheim í Þýskalandi.  En kannski er ég of gagnrýninn á sjálfan mig,“ sagði Gylfi glaðbeittur og bætti við að þá hefði hann verið yngri, leikið í veikari deild á Englandi og verið í 21 árs landsliðinu.

Varðandi komandi ár sagðist Gylfi líta björtum augum fram á veginn, bæði á vettvangi enska liðsins Tottenham og með íslenska landsliðinu en næsta haust hefst undankeppni Evrópumótsins.

Ítarlega verður rætt við Gylfa Þór í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kemur út á mánudaginn.

mbl.is