Tómas: Markið gilt og það er það sem telur

„Það getur vel verið að þetta hafi verið rangstæða en markið er gilt og það er það sem telur,“ sagði Tómas Óli Garðarsson sem skoraði mark Breiðabliks í 1:1-jafnteflinu við FH í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Tómas skoraði markið strax á 3. mínútu eftir stungusendingu Páls Olgeirs Þorsteinssonar en Tómas virtist vera rangstæður þegar sendingin kom.

„Þetta var svolítið tæpt. Ég er ekki alveg klár á því,“ sagði Tómas. Hann tók varlega í það að leikur Blika hefði lofað góðu fyrir sumarið.

„Fyrsti leikur snýst alltaf svolítið um baráttuna. Þetta var svolítið „skrappí“ leikur af okkar hálfu, sérstaklega í seinni hálfleik. Við vorum svolítið að missa boltann og óeinbeittir og þreyttir á köflum, aðallega í seinni hálfleik,“ sagði Tómas Óli. Blikar tefldu fram nýrri vörn frá síðasta tímabili og Tómas var ánægður með hana.

„Mér fannst hún bara halda þokkalega. Við fengum eitt mark á okkur úr föstu leikatriði en þeir fengu fullt af hornspyrnum. Þetta var flottur leikur hjá vörninni í dag.“

mbl.is
Loka