Fékk 70 metra stungusendingu frá markverðinum

Andri Rúnar Bjarnason er búinn að skora þrjú í dag.
Andri Rúnar Bjarnason er búinn að skora þrjú í dag. Styrmir Kári

Þrír leikir fóru fram í fyrstu deild karla í dag. Andri Rúnar Bjarnason, leikmaður BÍ/Bolungarvíkur, skoraði þrennu í stórsigri liðsins á Tindastól 4:0. Fylgst var með gangi mála í leikjum dagsins.

Leikir dagsins

1. deild karla: 
Leiknir R. - Grindavík 1:0
Sindri Björnsson (56.)
Leikskýrsla 

BÍ/Bolungarvík - Tindastóll 4:0
Aron Spear (36.), Andri Rúnar Bjarnason (47.) (55.) (65.)
Leikskýrsla 

KA - Víkingur Ó.  2:3
Gunnar Örvar Stefánsson (85.), Arsenij Buinickij (88.) / Steinar Már Ragnarsson (51.), Eyþór Helgi Birgisson (72.), Toni Espinosa (82.)
Leikskýrsla


2. deild karla: 
Huginn - Grótta 0:2
Leikskýrsla

ÍR - Fjarðabyggð 0:0
Leikskýrsla

Reynir S. - Völsungur 2:2
Leikskýrsla

Andri Rúnar var þar með fyrsti leikmaðurinn í Íslandsmótinu til að skora þrennu þetta sumarið. Öll mörkin komu í síðari hálfleik. Það fyrsta á 47. mínútu, annað markið á 56. mínútu og það þriðja kom tíu mínútum síðar.
Aron Spear skoraði fyrsta mark leiksins á 36. mínútu. Heimamenn misstu Halldór Hermannson af velli með rautt spjald skömmu fyrir leikslok.

Ákváðum í hálfleik að keyra yfir þá

Það var svolítill vorbragur í lofti svona til að byrja með. Menn að fara á gras í annað skipti og bæði lið voru svolítið lengi að ná takti í sinn leik,“ sagði Andri þegar mbl.is náði tali af honum. „Svo unnum við okkur vel inn í leikinn og fórum að halda boltanum miklu betur og það er eiginlega lykillinn að sigrinum.“

Andri lýsir mörkunum sínum svo: „Í fyrsta markinu fékk ég stungusendingu frá markverðinum okkar, einhverja 70 metra stungusendingu og ég skoraði með fyrstu snertingu. 

Annað markið var þannig að ég fékk sendingu frá Viktori sem er held ég 15 ára frekar en 16, og skrúfaði boltann í fjærhornið.

Þriðja markið fékk ég boltann með varnarmann í bakinu og náði að snúa og setja boltann á milli fóta markvarðarins.“

Aðspurður um komandi sumar segir hann vera þokkalega bjartsýnn. „Það vantaði einhverja fimm í okkar lið þannig við erum bara bjartsýnir á sumarið.“

KA skoraði tvö undir lokin

Tveir aðrir leikir voru í fyrstu deild í dag. Leiknir vann sigur á Grindavík 1:0 þar sem Sindri Björnsson skoraði sigurmarkið með skalla. Tomislav Misura var rekinn af velli í liði Grindavíkur á 89. mínútu fyrir hrindingu.

Norður á Akureyri unnu Víkingar frá Ólafsvík KA 2:3 þar sem gestirnir komust í 0:3 með mörkum frá Steinari Ragnarssyni, Eyþóri Helga og Toni Espinosa. En heimamenn börðust eins og ljón síðustu mínúturnar og minnkuðu muninn í 2:3. Fyrst með skallamarki Gunnars Stefánssonar og svo skallaði Arsenij Buinickij í netið. Lengra komust heimamenn ekki.

15.56. Búið að flauta af. Spenna og læti. Alveg eins og við viljum hafa það.

15.49. MARK Á AKUREYRI. Aftur skora heimamenn og minnka muninn í eitt mark. Arsenij Buinickij að skalla hornspyrnu í netið.

15.46. MÖRK Á AKUREYRI. Tvö mörk með skömmu millibili fyrir norðan. Fyrst skoraði Toni Espinosa og kom gestunum í 0:3 en Gunnar Örvar Stefánsson minnkaði muninn nokkrum mínútum síðar með skalla. 1:3 og stutt eftur. Fáum við endurkomu ársins strax í fyrstu umferð?

15.41. RAUTT Á TORFNESVELLI. Það er greinilega allt að frétta fyrir vestan. Halldór Páll Hermannsson leikmaður BÍ/Bolungarvíkur var að fá rautt spjald fyrir tveggjafóta tæklingu. Þeir eru að vinna 4:0. Þá eru kominn þrjú rauð spjöld og níu mörk. 

15.36. Enn bara tvö mörk í annari deildinni. Spurning um að henda í eina auglýsingu, svona þegar styttist í leikslok. Mörk óskast.

15.34. MARK Á AKUREYRI. Eyþór Helgi Birgisson er búinn að bæta við marki fyrir Víking Ólafsvík eftir skyndisókn. Skömmu síðar fór hann útaf og Alejandro Abarca kom í hans stað.

15.24. MARK Á TORFNESVELLI. ÞRENNA HJÁ ANDRA. Andri Rúnar Bjarnason er búinn að bæta við fjórða marki BÍ/Bolungarvíkur og þriðja marki sínu. Þetta er fyrsta þrenna Íslandsmótsinsm kemur strax í fyrstu umferð.

15.15. MÖRK Í BREIÐHOLTI OG Á AKUREYRI. Steinar Már Ragnarsson að skora með skalla fyrir Víkinga frá Ólafsvík eftir undirbúning Emir Dokara. Nánast á sama tíma skoraði Sindri Björnsson fyrir Leiknismenn eftir að Vigfús Arnar Jósepsson hafði tekið aukaspyrnu.

15.12. MARK Á TORFNESVELLI. STAÐAN ER 3:0 FYRIR BÍ/BOLUNGARVÍK. Aftur skorar Andri Rúnar fyrir heimamenn eftir sendingu frá hinum efnilega Viktori Júlíussyni. 

15.10. RAUTT Á ÍR-VELLI. Gamla brýnið Tommy Nilsen fékk rautt spjald í liði Fjarðabyggðar. Braut innan teigs og vítaspyrna dæmd. Viktor Segatta tók spyrnuna en Kile Kennedy í marki KFF varði. Enn 0:0 þar á bæ.

15.06 MARK Á TORFNESVELLI. Staðan er 2:0 Andri Rúnar Bjarnason skorar fyrir BÍ/Bolungarvík. Anton Ari Einarsson markvörður Tindastóls varnarlaus í markinu.

15.00. Jæja. Síðari hálfleikur farinn af stað í leikjunum. Nú lesum við upp auglýsinguna aftur. Mörk óskast í leikina sex.

14.45. Hálfleikur og þetta er nú heldur rýr markauppskera. Sex leikir og aðeins þrjú mörk, þar af tvö í Sandgerði þar sem Reynismenn hafa skorað tvö gegn Völsungi. Rúben Filipe Vasques Narciso skoraði síðara mark Reynismanna. Annars er staðan á núllinu.

14.40. Ding ding ding. MARK Á TORFNESVELLI. Fyrsta markið í fyrstu deild er komið. Aaron Robert Spear skorar fyrir BÍ/Bolungarvík.

14.30 Hér verður lesin upp auglýsing. Mörk óskast í leikina. Aðeins eitt er komið og það gerði Ólafur Árni Hall fyrir Reyni Sandgerði. Þeir leika gegn Völsungi. 

14.15. Ekkert mark komið í leikina sex. Víkingar frá Ólafsfirði fengu ágæt færi fyrir skömmu en Steinar Már skaut yfir.

14.00. Leikirnir komnir af stað. Hér var planið að vera með beina textalýsingu, viðtöl og annað frá Leiknisvelli. Það var ekki hægt því þar er ekkert net fyrir fjölmiðla. Það verður því lýst úr Hádegismóum sem er reyndar ekki síðri staður. 

Leiknir frá Reykjavík mætir Grindavík í fyrstu umferð fyrstu deildar.
Leiknir frá Reykjavík mætir Grindavík í fyrstu umferð fyrstu deildar. mbl.is/Golli
mbl.is