Ólafur: Okkar hausverkur að nýta yfirburðina

Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks var ekki nægilega sáttur með leik sinna manna gegn Fram í fimmtu umferð Pepsí-deildar karla í knattspyrnu í kvöld en lokatölur urðu 1:1. Blikarnir voru hins vegar sterkari aðilinn í leiknum en náðu ekki að nýta yfirburði sína í leiknum og voru ansi nærri því að fara tómhentir heim.

„Við náðum að koma til baka og ná í eitt stig eftir að hafa lent undir. Fyrirfram og miðað við hvernig leikurinn spilaðist þá hefði ég að sjálfsögðu viljað fá þrjú stig. Við sköpuðum aragrúa færa og höfðum ákveðna yfirburði sem við nýttum okkur ekki. Eins og ég hef alltaf sagt þá endurspegla; úrslitin endurpsegla alltaf frammistöðuna og frammistaðan var ekki meiri en til eins stigs í dag.“

Blikar áttu gríðarlega margar fyrirgjafir og samtals urðu hornspyrnurnur þeirra fjórtán en það kom lítið sem ekkert úr þeim.

„Það kom ekkert úr þeim sem telur. Það telur ekkert að fá fleiri hornspyrnur en andstæðingurinn. Við þurfum að ná að breyta hornspyrnunum, færunum og fyrirgjöfunum í færi og mörk. Það telur og það er nú það skemmtilega við fótboltann. Það er okkar vandamál og hausverkur að leysa núna hvernig við getum nýtt yfirburði til að ná forystunni og vinna leiki,“ sagði Ólafur meðal annars en nánar er rætt við hann í myndskeiðinu hér að ofan.

mbl.is
Loka