Guðmundur: Við höfum farið lengri leiðina á þessu tímabili

Guðmundur Benediktsson þjálfari Breiðabliks.
Guðmundur Benediktsson þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Eggert

„Við höfum farið lengri leiðina á þessu tímabili og þess vegna var sætt að sigla þessu í höfn þó það hafi þurft til þess framlengingu því,“ sagði Guðmundur Benediktsson þjálfari Blika eftir að þeir höfðu tryggt sér sæti í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla eftir 3:1 sigur á Þór frá Akureyri í framlengingu.

„Ég var reyndar ánægður með spilamennskuna framan af leik þegar við létum boltann ganga vel og menn unnu vel en mér fannst vanta bara aðeins lokaákvörðunina í teignum. Það hefur loðað við okkur uppá síðkastið að skora bara eitt mark, eins og það komi þá smá hræðsla við að fá á sig mark og það kom að sjálfsögðu, eins og gerist ef maður spáir of mikið í það.“

Blikar hafa ekki riðið feitum hesti í deildinni í sumar og hafa ekki unnið leik þar en nú unnið tvo bikarleiki í röð. „Það er hægt að nota þennan sigur. Við viljum fara áfram í þessari keppni, höfum engan áhuga á að hvíla okkur fyrir eitthvað annað. Við viljum vera með í öllu ef það er möguleiki,“ bætti þjálfarinn við.

mbl.is