Danskur framherji í Stjörnuna

Rolf Toft.
Rolf Toft.

Stjarnan hefur krækt sér í nýjan framherja frá Danmörku, Rolf Toft, en hann kemur til Garðabæjarliðsins í staðinn fyrir landa sinn Jeppe Hansen, sem lék með Stjörnunni í fyrstu tíu umferðum Íslandsmótsins.

Toft er 21 árs gamall og kemur frá dönsku meisturunum AaB frá Álaborg. Hann hefur leikið 25 leiki með AaB í dönsku úrvalsdeildinni og skorað eitt mark. Toft er uppalinn hjá Hjörring og hefur verið í láni hjá B-deildarliðinu Vejle að undanförnu.

Í tilkynningu frá Stjörnunni segir að Toft hafi samið við félagið út þetta tímabil og verði vonandi kominn með leikheimild fyrir leikinn gegn Fylki næsta sunnudag. Hann verður hins vegar ekki löglegur með Stjörnunni á fimmtudaginn þegar liðið mætir Motherwell í 2. umferð Evrópudeildarinnar. Toft mun hitta lið Stjörnunnar í Glasgow, taka þar þátt í undirbúningi liðsins fyrir Evrópuleikinn og koma svo samferða því til Íslands.

Á bold.dk kemur fram að Toft hafi verið til reynslu hjá B-deildarliðinu AGF í síðustu viku en ekki hafi orðið af samningi þar.

mbl.is