Allir vilja spila á San Síró

Pablo Punyed í baráttu við tvo leikmenn Inter á Laugardalsvelli ...
Pablo Punyed í baráttu við tvo leikmenn Inter á Laugardalsvelli í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Ef að líkum lætur lýkur Evrópuævintýri Stjörnumanna í kvöld og það ekki á neinum slorstað. Sjálfur San Síró, eða Giuseppe Meazza eins og leikvangurin heitir, verður vettvangur Garðabæjarliðsins þegar það etur kappi við ítalska stórliðið Inter.

Eftir 3:0-tap á Laugardalsvellinum eru úrslitin í einvíginu ráðin en Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, segir að sínir menn mæti til leiks með upprétt höfuð og markmiðið sé að njóta þess að spila á stóra sviðinu.

„Það er gott hljóð í okkur og maður finnur fyrir mikilli spennu og eftirvæntingu hjá drengjunum,“ sagði Rúnar Páll við Morgunblaðið en allt liðið var komið til Mílanó á mánudaginn. Hluti hópsins hélt áleiðis til Ítalíu strax eftir leikinn við Breiðablik á sunnudagskvöldið og afgangurinn af hópnum skilaði sér á áfangastað á mánudagskvöld.

„Þeir segja mér Ítalirnir að það sé búist við 40-50 þúsund manns á leikinn. Þetta er fyrsti keppnisleikur liðsins á heimavelli á tímabilinu og stuðningsmenn liðsins vilja sjá það enda mikið af nýjum leikmönnum í því. Það verður gaman fyrir okkar leikmenn að taka þátt í þessum leik. Einvíginu er ekki lokið fyrr en því er lokið en auðvitað gerum við okkur grein fyrir því hver staðan er. Við ætlum að reyna okkar besta til að stríða þeim. Stefnan er að fara með liðið aðeins framar á völlinn og reyna að koma þeim eitthvað á óvart. Ef Inter skorar á okkur í kjölfarið er ekkert annað að gera en að pakka í vörn,“ sagði Rúnar Páll.

mbl.is

Bloggað um fréttina