Lagerbäck: Aldrei séð svona vel lokað á Robben

Lars Lagerbäck þjálfari á Laugardalsvelli í kvöld.
Lars Lagerbäck þjálfari á Laugardalsvelli í kvöld.

„Ég er auðvitað hæstánægður með það hvernig leikmenn og allt starfsliðið hafa staðið sig í öllum þessum leikjum, sérstaklega síðustu daga. Liðið stendur sig afar vel, er mjög vel skipulagt og veit hvað það vill gera. Við lærðum ýmislegt í síðustu undankeppni sem við græðum á núna,“ sagði Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari eftir 2:0-sigurinn á Hollandi í kvöld.

Ísland hefur unnið alla þrjá leiki sína í undankeppni EM til þessa, ekki fengið á sig eitt einasta mark en skorað átta. Það var því létt yfir Lagerbäck á fréttamannafundi í kvöld, eins og reyndar jafnan áður. Sigurinn í kvöld er einn sá stærsti sem Svíinn hefur fagnað á löngum ferli, og einn sá stærsti í sögu íslenska landsliðsins.

Gylfi einstakur í að verjast

„Varnarlega var þetta nánast fullkomið. Við hefðum getað haldið boltanum aðeins betur en gegn svona liði er svo mikilvægt að vera þolinmóður og halda sér réttu megin við boltann. Við vildum auðvitað halda boltanum aðeins betur en varnarlega var þetta stórkostlegt hjá okkur. Það eru ýmsar leiðir til að spila fótbolta,“ sagði Lagerbäck, sem vildi helst hrósa öllum sínum leikmönnum fyrir leikinn í kvöld. Hann var spurður sérstaklega út í Gylfa Þór Sigurðsson sem skoraði bæði mörk Íslands.

„Gylfi er í heimsklassa. Það sem er einstakt við hann er hvað hann er líka góður varnarlega. Hann er einn sá besti sem ég veit um sem alhliða leikmaður, sem getur bæði varist og sótt,“ sagði Lagerbäck sem var einnig fenginn til að tala um Jón Daða Böðvarsson og Emil Hallfreðsson.

Jón Daði tekur alltaf rétta ákvörðun

„Í ljósi þess að Jón Daði hafði aðeins spilað nokkra æfingaleiki með okkur fyrir þessa keppni er ég mjög ánægður. Hann er svo klár í að staðsetja sig þegar hann er ekki með boltann. Hann tekur alltaf rétta ákvörðun. Svo hefur hann líka hæfileikana til að sækja á vörn Hollands, og hefði með smáheppni getað skorað í dag. En það má hrósa öllum leikmönnum í dag. Þetta var virkilega góð liðsframmistaða,“ sagði Lagerbäck.

„Emil var einn af okkar albestu mönnum í dag og hefur verið virkilega góður í öllum þremur leikjunum,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Varnarleikur Íslands hefur verið nánast óaðfinnanlegur í undankeppninni til þessa og það að liðið hafi ekki fengið á sig mark í neinum leikjanna þriggja, gegn Tyrklandi, Lettlandi og Hollandi, segir sína sögu.

Birkir Bjarna, Aron og Ragnar hjálpuðu til gegn Robben

„Í vikunni fyrir leikinn gegn Tyrklandi áttum við mjög góðar æfingar sem hafa skilað sér. Það var mjög góð byrjun. Þetta gekk fullkomlega upp og svo erum við menn frammi sem eru mjög góðir í að verjast, en líka að sækja. Það hefur allt gengið upp í þessari viku. Við rýndum í síðustu keppni og höfum fundið hvað þurfti að bæta,“ sagði Lagerbäck.

Aðspurður hver hefði verið lykillinn að því hve vel gekk að halda aftur af Arjen Robben í leiknum sagði Lagerbäck það hafa falist í samvinnu.

„Við reyndum að hafa alltaf fleiri en einn að verjast honum. Það var alltaf einhver nálægt til að hjálpa bakverðinum. Birkir Bjarnason var frábær á kantinum, Aron kom svo frá miðjunni og Ragnar úr vörninni þegar til þurfti. Ég hef aldrei séð lokað svona vel á Robben. Við spilum ekki maður á mann, heldur svæðisvörn, og máttum ekki tapa í stöðunni 1 gegn 1 á móti honum. Það gekk upp,“ sagði Lagerbäck.

Aðspurður um muninn á íslenska hópnum nú og þeim sem spilaði í síðustu undankeppni sagði Lagerbäck að leikmenn væru enn betur meðvitaðir um sitt hlutverk.

Vörnin eins góð og hún getur orðið

„Í fyrsta lagi er reynslan orðin meiri. Þetta er frekar ungt lið og bæði ég og leikmennirnir lærðum mikið í síðustu undankeppni. Vörnin var að mestu góð í síðustu keppni en hún hefur verið eins góð og hún getur orðið í síðustu leikjum. Leikmennirnir læra sífellt betur hver á annan og til hvers er ætlast af þeim, og það skýrir muninn á spilamennskunni núna og í síðustu keppni. Það þekkja allir sitt hlutverk,“ sagði Lagerbäck, sem er óspar á hrósið þegar hann talar um hugarfar lærisveina sinna.

Eins og skólabekkur eftir sumarfrí

„Hugarfarið hefur verið stórkostlegt allt frá því að ég tók við. Það er auðvelt að vera þjálfari þegar staðan er svona. Leikmennirnir elska að koma heim og spila fyrir sína þjóð, og auðvitað er enn betra þegar svona vel gengur,“ sagði Lagerbäck, sem þarf ekki að fást við neinar deilur á milli leikmanna eins og stundum hefur gerst hjá hollenska landsliðinu og fleiri stórliðum.

„Þegar hópurinn kemur saman þá er þetta eins og að sjá skólabekk hittast eftir sumarfrí. Ég hef aldrei séð nokkuð sem bendir til einhverra deilna á milli manna eða einhvers í þeim anda. En við munum sjá til þess að menn haldi sig á jörðinni. Við töluðum mikið um hugarfarið eftir leikinn við Tyrki og þetta snýst um að halda svona áfram,“ sagði Lagerbäck.

Gylfi Sigurðsson tekur vítaspyrnuna sem íslenska liðinu yfir, 1:0, á …
Gylfi Sigurðsson tekur vítaspyrnuna sem íslenska liðinu yfir, 1:0, á 10. mínútu. mbl.is/Ómar
Jón Daði Böðvarsson er snillingur í að staðsetja sig án …
Jón Daði Böðvarsson er snillingur í að staðsetja sig án boltans, að sögn Lagerbäck. mbl.is/Ómar
Öðru marki Gylfa Sigurðssonar á 42. mínútu var fagnað.
Öðru marki Gylfa Sigurðssonar á 42. mínútu var fagnað. mbl.is/Ómar
Stuðningsmenn Íslands héldu áfram að fagna lengi eftir að leik …
Stuðningsmenn Íslands héldu áfram að fagna lengi eftir að leik lauk. mbl.is/Ómar
mbl.is