Ingvar: Gríðarlega stoltur

Ingvar Jónsson markvörður Stjörnunnar.
Ingvar Jónsson markvörður Stjörnunnar. mbl.is/Ómar

Ingvar Jónsson, markvörður Stjörnunnar, segir valið á besta leikmanni Íslandsmótsins vera mesta heiður sem fótboltamanni á Íslandi geti hlotnast. Ingvar var valinn besti leikmaður Pepsí-deildarinnar í sumar af andstæðingum sínum en tilkynnt var um valið í kvöld í húsakynnum KSÍ. 

„Já já ég hafði aðeins hugsað út í þennan möguleika enda er mesti heiður sem leikmaður getur fengið að vera kosinn af öðrum leikmönnum deildarinnar. Ég er því gríðarlega stoltur,“ sagði Ingvar þegar mbl.is tók hann tali. 

Ingvar er sammála því að Íslandsmeistaratitill Stjörnunnar hafi komið til vegna góðrar liðsheildar Garðbæinga. „Alveg klárlega. Allur leikmannahópurinn skilaði frábæru starfi og ekki hægt að nefna einn sem átti slæmt tímabil. Allt liðið spilaði gríðarlega vel í allt sumar. Þegar við lentum í meiðslum þá komu aðrir í staðinn sem spiluðu eins og kóngar. Það hlýtur því að hafa verið erfitt að taka einhvern einn út úr liðinu.“

Ingvar bíður ekki örvæntingarfullur eftir því að komast í atvinnumennskuna og ætlar að spila skynsamlega úr sínum spilum. „Frá því ég var lítill hefur það verið draumur að spila í atvinnumennsku og ég horfi alveg til þess en ég er alveg rólegur. Ég er frekar ungur af markmanni að vera og rétta tækifærið, og rétta liðið, þyrfti að koma til því ég ætla ekki að ekki að fara út til þess að sitja á varamannabekknum. Ég er gríðarlega ánægður hjá Stjörnunni en ef rétta tækifærið kemur í haust eða á næsta ári þá mun ég klárlega skoða það,“ sagði Ingvar Jónsson, besti leikmaður Íslandsmótsins 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert