Jóhannes ráðinn þjálfari ÍBV

Frá fréttamannafundi ÍBV.
Frá fréttamannafundi ÍBV. Ljósmynd/Júlíus G.Ingason

Jóhannes Harðarson var í dag ráðinn þjálfari karlaliðs ÍBV í knattspyrnu til næstu þriggja ára og tekur  hann við Eyjaliðinu af Sigurði Ragnari Eyjólfsson sem ákvað að láta af störfum eftir tímabilið.

Jóhannes mun flytja til Eyja og mun hafa fasta búsetu þar að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá ÍBV.

Jóhannes hefur þjálfað norska C-deildar Flekkerøy frá árinu 2010. Hann kom til félagsins fyrst sem leikmaður árið 2008 og var síðan spilandi þjálfari þess en síðustu árin hefur hann einbeitt sér að þjálfun liðsins. Undir stjórn Jóhannesar hefur liðið í tvígang lent í öðru sæti í sínum riðli en aðeins liðið í efsta sæti vinnur sér sæti í B-deildinni. Á nýafstöðu tímabili lenti liðið í 6. sæti í sínum riðli.

Jóhannes er 38 ára gamall Skagamaður sem lék með meistaraflokki ÍA frá 1995 til 2000. Hann gekk í raðir hollenska liðsins Maastricht árið 2001, fór þaðan til Groningen og til Start í Noregi árið 2004 en síðustu fimm árin hefur hann verið í herbúðum Flekkerøy. Jóhannes á að baki tvo leiki með íslenska A-landsliðinu sem hann lék árið 2005.

Jóhannes Harðarson.
Jóhannes Harðarson. Ljósmynd/kxweb.no
mbl.is