Kristinn og Matthías skoruðu í sigri á Kanada

Kristinn Steindórsson skoraði í fyrsta A-landsleik sínum í kvöld.
Kristinn Steindórsson skoraði í fyrsta A-landsleik sínum í kvöld. Ljósmynd/thecrew.com

Ísland vann 2:1-sigur á Kanada í kvöld í vináttulandsleik í knattspyrnu karla sem háður var í Orlando í Bandaríkjunum.

Ísland komst yfir strax á 6. mínútu þegar Kristinn Steindórsson skoraði með góðum skalla í sínum fyrsta A-landsleik. Rúrik Gíslason átti stóran þátt í markinu en hann lék frábærlega framhjá varnarmanni Kanada á hægri kantinum og gaf síðan fyrirgjöf beint á Kristin.

Ísland komst í 2:0 rétt fyrir hálfleik þegar löng sending barst af hægri kantinum frá Theódóri Elmari Bjarnasyni, Sölvi Geir Ottesen vann skallaeinvígi og kom boltanum á Matthías Vilhjálmsson sem skoraði með skalla sitt annað landsliðsmark.

Kanada minnkaði muninn í 2:1 þegar Dwayne De Rosario skoraði með skalla eftir frábæra fyrirgjöf í kjölfarið á hornspyrnu eftir 70 mínútna leik og þar við sat.

Hólmbert Aron Friðjónsson, sem kom inná sem varamaður í upphafi seinni hálfleiks, fékk tvö mjög góð færi undir lok leiksins en tókst ekki að nýta þau. Hann þreytti frumraun sína í kvöld með A-landsliðinu eins og Kristinn, Ólafur Karl Finsen og Elías Már Ómarsson, en fjölda fastamanna vantaði í bæði lið þar sem ekki er um opinberan landsleikjadag að ræða.

Liðin mætast að nýju á mánudagskvöld.

Lið Íslands: (4-4-2) Mark: Hannes Þór Halldórsson (Ingvar Jónsson 65.). Vörn: Theódór Elmar Bjarnason, Sölvi Geir Ottesen, Sverrir Ingi Ingason, Hjörtur Logi Valgarðsson. Miðja: Rúrik Gíslason (Elías Már Ómarsson 87.), Guðlaugur Victor Pálsson (Björn Daníel Sverrisson 46.), Rúnar Már Sigurjónsson, Kristinn Steindórsson (Þórarinn Ingi Valdimarsson 46.). Sókn: Matthías Vilhjálmsson (Hólmbert Aron Friðjónsson 46.), Jón Daði Böðvarsson (Ólafur Karl Finsen 72.).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert