Rigningin færði okkur inn

Hörður Sveinsson, Einar Karl, leikmaður Vals, Þór Hinriksson og Jón …
Hörður Sveinsson, Einar Karl, leikmaður Vals, Þór Hinriksson og Jón Karlsson Þeir tveir síðastnefndu eru að reka battar.is Þórður Arnar Þórðarson

„Við erum fyrst og fremst að vinna í því að láta knattspyrnufólk nota fæturna rétt,“ segja Þór Hinriksson og Jón Karlsson knattspyrnuþjálfarar og eigendur Batta sem bjóða knattspyrnumönnum og konum upp á einkaþjálfun í knattspyrnu.

Hjá Böttum er sérstök áhersla lögð á sendingar og móttöku á bolta og notast er við sérsmíðaða sendingabatta. Í nútíma knattspyrnu eru gerðar meiri kröfur um að leikmenn, hvort sem þeir eru varnar-, miðju- eða sóknarmenn, búi yfir mikilli tækni, fyrsta snerting þeirra sé góð og að sendingar séu fastar og nákvæmar.

Þór, sem hefur reynslu af þjálfun í Hollandi, segir einmitt að mestu viðbrigðin sem íslenskir leikmenn verða fyrir í atvinnumennsku séu móttaka boltans og sendingar.

„Kosturinn við battana er að því fastar sem þú sendir á þá því fastari sendingu færðu til baka. Þá er móttakan meira krefjandi.“

Ekki hægt að vera úti

Þór og Jón segja að aðstaðan í Engihjallanum sé fyrsta flokks og það hafi verið staðfest þegar Bjarki Gunnlaugsson, fyrrum landsliðs- og atvinnumaður og nú umboðsmaður, kom með þrjá hollenska umboðsmenn frá PSV, AZ Alkmaar og Groningen í heimsókn. Urðu Hollendingarnir dolfallnir yfir aðstöðunni.

„Við fórum í fyrra með annan flokk kvenna Vals til Spánar og æfðum við toppaðstæður. Þegar við komum heim voru fyrstu fimm dagarnir í júní frábærir og engin plön um að hafa þetta inni. En síðan rigndi restina af sumrinu og á endanum sögðum við: „Þetta er ekki hægt,“ og fórum að leita að hentugu húsnæði sem við fundum hér í Engihjalla. Hér líður okkur vel í hitanum,“ segja þeir félagar.

Hugmyndin að einstaklingsmiðaðri knattspyrnuþjálfun er ekki ný af nálinni hjá Þór. „Hugmyndin fæðist fyrir löngu. Fyrir nokkrum árum settist ég svo niður með Jóni og þá tókum við spjall. Veltum því fyrir okkur hvað fótboltamenn væru að gera mestan hluta af leiknum. Niðurstaðan var að þeir eru að senda bolta og taka á móti boltanum. Þetta vantar uppá hjá mörgum og við erum að taka við strákum og stelpum frá níu ára aldri og upp í þrautreynda úrvalsdeildarleikmenn.“

Sá fyrsti nú landsliðsmaður

Einn af fyrstu viðskiptavinum Þórs og Jóns var Hólmbert Aron Friðjónsson sem skoraði sitt fyrsta landsliðsmark gegn Kanada í síðustu viku.

Hólmbert hefur tekið gríðarlegum framförum og bætt sig með hverju árinu. Saga Hólmberts er í raun merkileg því hann var ungur efnilegur leikmaður HK, skipti yfir í Fram og fór þaðan í atvinnumennsku til Glasgow Celtic í Skotlandi. „Ég byrjaði að vinna með Þór og Jóni í upphafi árs 2013 og allt þangað til ég gerðist atvinnumaður. Battaæfingarnar hjálpuðu mér mjög mikið, fótavinnan varð hraðari og fyrsta snertingin betri. Allt leiddi þetta til þess að ég átti gott tímabil og draumurinn um atvinnumennsku varð að veruleika.“

Hólmbert er fyrsti viðskiptavinur batta.is.
Hólmbert er fyrsti viðskiptavinur batta.is. Ljósmynd/Celticfc.net
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »