Hefði viljað jafna í lokin

Gunnlaugur Jónsson tekur í spaðann á Garðari Gunnlaugssyni.
Gunnlaugur Jónsson tekur í spaðann á Garðari Gunnlaugssyni. mbl.is/Eva Björk

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, var ánægður með Skagaliðið í kvöld þrátt fyrir tapið gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla. 

„Í heild var ég ánægður með liðið. Það var einhvern hrollur í okkur í fyrri hálfleik en mér fannst þeir ekki vera að skapa sér mikið þá. Við stigum upp í síðari hálfleik og í heild var ég sáttur við leik minna manna. Ég hefði viljað jafna leikinn í lokin,“ sagði Gunnlaugur en Garðar Gunnlaugsson átti þá dauðafæri en skalla yfir í uppbótartíma.

Jón Vilhelm Ákason átti einnig algjört dauðafæri snemma í síðari hálfleik en líkt og Garðar skallaði hann knöttinn yfir.

Skagaliðið kom sterkt út í síðari hálfleik en Stjörnumenn stjórnuðu leiknum í þeim fyrri. Gunnlaugur segir að um sviðsskrekk hafi verið að ræða, enda margir að spila sinn fyrsta leik í deildinni.

„Það var einhver sviðsskrekkur í mönnum í fyrri hálfleik, við komum inn í seinni hálfleikinn af miklu meiri krafti, allt liðið. Menn þorðu að gera hlutina, að taka boltann niður og við náðum ágætum spilköflum í erfiðu roki. Því miður náðum við ekki að komam þessu marki inn en við fengnum nóg af færum til þess,“ sagði Gunnlaugur.

Fjölmargir leikmenn í Skagaliðinu voru að spila sinn fyrsta leik í efstu deild og var Gunnlaugur afar ánægður með þeirra framlag í dag.

„(Frammistaðan var) framúrskarandi, Þórður (Þ. Þórðarson) bakvörður var frábær í seinni hálfleik. Darren (Lough) byrjaði tæpur og Teitur (Pétursson) kemur virkilega sterkur inn í seinni hálfleik. Albert (Hafsteinsson) á miðjunni var sívaxandi. Ég er mjög sáttur við það, þetta er fínt veganesti fyrir þá og liðið þó að við höfum tapað,“ sagði Gunnlaugur.

mbl.is