Gaman að vera aldursforseti í þessum hópi

Ármann Smári Björnsson fagnaði sigri á Leiknisvelli í fyrra og ...
Ármann Smári Björnsson fagnaði sigri á Leiknisvelli í fyrra og aftur á mánudagskvöldið. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Ef maður gæti verið viss um að við spiluðum alltaf eins og í þessum leik gegn Leikni þá værum við í toppmálum,“ sagði Ármann Smári Björnsson, miðvörðurinn stóri og stæðilegi í liði ÍA. Hann er leikmaður 2. umferðar Pepsi-deildarinnar hjá Morgunblaðinu eftir mjög góða frammistöðu í 1:0-sigrinum á Leikni í Breiðholti, í fyrsta heimaleik Leiknismanna í efstu deild. Bæði lið komu upp úr 1. deildinni síðastliðið haust en bæði töp Leiknis á því tímabili komu gegn Skagamönnum.

Vegna meiðsla Darren Lough var Ármann sá eini í vörn ÍA í fyrrakvöld sem fæddur er fyrir árið 1993. Teitur Pétursson ('93) og Þórður Þ. Þórðarson ('95) léku sem bakverðir og í hjarta varnarinnar er Ármann með Arnór Snæ Guðmundsson ('93) sér við hlið. Í markinu er svo Árni Snær Ólafsson sem er 23 ára. Árni hefur aðeins einu sinni þurft að sækja boltann í netið í fyrstu tveimur umferðunum, eftir draumamark Ólafs Karls Finsen úr aukaspyrnu.

„Eins og staðan er núna þá eru allir þessir strákar að standa sig frábærlega. Það er mjög gaman að spila með þeim, ungum strákum eins og Þórði, Alberti [Hafsteinssyni], Arnóri Snæ, Teiti og Árna. Það er mjög gaman að vera aldursforsetinn í þessum hópi og að þeir standi sig svona vel. Einhvern tímann verða þeir að fá tækifæri og ég held að það sé flott mál að við séum að nota unga Skagastráka í þetta verkefni," sagði Ármann.

Í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag er viðtalið við Ármann í heild og þar er líka að finna úrvalslið blaðsins úr 2. umferð deildarinnar.