Var alls ekki víst að ég gæti spilað áfram

Gunnar Nielsen var bestur í 5. umferð að mati Morgunblaðsins.
Gunnar Nielsen var bestur í 5. umferð að mati Morgunblaðsins. mbl.is/Kristinn

„Ég hef notið þess í botn hingað til að spila á Íslandi,“ sagði Gunnar Nielsen, færeyski landsliðsmarkvörðurinn sem ver mark Íslandsmeistara Stjörnunnar í knattspyrnu. Gunnar er leikmaður 5. umferðar Pepsideildarinnar að mati Morgunblaðsins, eftir frábæra frammistöðu í stórleiknum gegn FH á Samsung-vellinum sem endaði með 1:1-jafntefli.

„Þetta gekk ágætlega hjá mér,“ sagði Gunnar hógvær. „FH hélt boltanum nokkuð mikið og skapaði einhver færi en heilt yfir fannst mér þeir ekki hættulegir. Við ætluðum að vera þéttir fyrir og beita skyndisóknum, en mér fannst við ekki nýta það nægilega vel þegar við vorum með boltann. Við getum verið ánægðir með stig þegar leikurinn er skoðaður,“ sagði Gunnar.

Það vakti mikla athygli þegar Gunnar ákvað að koma til Stjörnunnar en hann er eini Færeyingurinn sem leikið hefur í ensku úrvalsdeildinni, og var á mála hjá Blackburn og Manchester City um árabil. Nú, 28 ára gamall, ákvað hann að nýta tækifærið og leika í landinu þar sem móðir hans, Stefanía María Jóhannsdóttir, er fædd og uppalin.

„Ég hef notið tímans hérna í botn. Mér finnst sérstaklega frábært að sjá hvernig stuðningsmennirnir eru, sér í lagi hjá Stjörnunni. Í heimaleikjunum gegn Leikni og FH var andrúmsloftið magnað og þetta kom mér svolítið á óvart. Ég var búinn að heyra af Silfurskeiðinni áður en þessir stuðningsmenn hafa heillað mig mjög og fylgja okkur um allt, líka til Vestmannaeyja og á Akranes,“ sagði Gunnar, og hann er hrifinn af styrk íslensku deildarinnar.

Ítarlegt viðtal við Gunnar er í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. Þar er einnig að finna úrvalslið 5. umferðar og stöðuna í M-gjöfinni.