Fengum fullt af færum

Jón Vilhelm Ákason
Jón Vilhelm Ákason mbl.is / Eva Björk Ægisdóttir

Jón Vilhelm Ákason, leikmaður ÍA, var að vonum svekktur eftir 2:0 tap liðsins gegn Fjölni á Fjölnisvelli í kvöld í sjöttu umferð Pepsi deildar karla í fótbolta. ÍA er með fjögur stig eftir sex leiki og gengur brösulega að finna netmöskva andstæðinganna.

"Við byrjuðum leikinn frekar illa. Fyrsta hálftímann vorum við of langt frá mönnum og vorum í eltingaleik. Seinni hálfleikurinn var allt í lagi og við komum sterkir til leiks þar og vorum ágætlega inn í þessum leik. Við héldum áfram allan leikinn og gáfumst aldrei upp og hefðum bæði getað jafnað og komist inni í leikinn undir lokin.“

„Það er ekkert hægt að vera að pæla of lengi í þessu tapi hér í kvöld. Það er ekkert stress komið í mannskapinn. Við erum búnir að spila heilt yfir ágætlega í sumar að mínu mati. Við fengum fullt af færum hér í seinni hálfleik sem að við náðum því miður ekki að nýta.

„Við verðum bara að byggja á því og hefja stigasöfnunina. Við verðum að fara að skora meira og komast yfir í leikjunum. Það er þægileg tilfinning að vera í forystu og að sama skapi svakalega erfitt að þurfa að vera alltaf að elta og freista þess að jafna og knýja fram sigra.“ sagði Jón Vilhelm Ákason í viðtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert