Bragðdauft jafntefli á Akranesi

Albert Hafsteinsson, Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari.
Albert Hafsteinsson, Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Skagamenn og Fylkismenn gerðu markalaust jafntefli á Akranesi í nokkuð bragðdaufum leik í kvöld. Heilt yfir voru gestirnir úr Árbæ sterkari en Skagamenn börðust eins og ljón í leiknum og náðu ætlunarverki sínu fyrir leikinn að halda markinu hreinu.

Fylkismenn hófu leikinn ákveðnari og voru beittir í sínum sóknaraðgerðum. Þeir fengu þrjú hættuleg færi í fyrri hálfleik en alltaf náðu Skagamenn að bjarga á síðustu stundu.

Alber Brynjar Ingason fékk fyrsta færi leiksins en skot hans fór af varnarmanni og framhjá.

Áfram héldu Fylkismenn. Ragnar Bragi Sveinsson sem var líflegur í leiknum, fékk stórhættulegt færi eftir 20 mínútna leik en skalli hans var varinn á línu af bakverðinum Þórði Þ. Þórðarsyni.

Skömmu síðar komst Oddur Ingi Guðmundsson í gott færi en í þriðja skiptið náðu heimamenn sem voru mjög baráttuglaðir, að bjarga í horn.

Það var baráttan í liði Skagamanna sem skilaði þeim sínum góðu sóknarstöðum í fyrri hálfleiknum en þeir voru ekki nægilega beittir á síðasta þriðjungnum til að breyta góðri stöðu í færi.

Fylkismenn höfðu áfram undirtökin í síðari hálfleiknum. Þeirra besta færi kom eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik. Þá átti Ingimundur Níels Óskarsson góða sendingu á Albert Brynjar sem skallaði knöttinn í stöngina þaðan sem boltinn hrökk í fætur Odds Inga Guðmundssonar sem skaut yfir úr dauðafæri.

Eftir það sköpuðu liðin sér fátt og leikurinn verður seint sagður vera mikið fyrir augað. Varamaðurinn Davíð Einarsson átti hörkufæri undir lok leiks en skot hans fór rétt framhjá.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Þá er fylgst með gangi mála í öll­um leikj­un­um á ein­um stað í ÍSLENSKA BOLT­AN­UM Í BEINNI hér á mbl.is.

ÍA 0:0 Fylkir opna loka
90. mín. Leik lokið Markalaust jafntefli niðurstaðan!
mbl.is