Ásgeir lífgaði upp á leik liðsins

Gunnlaugur Jónsson
Gunnlaugur Jónsson Eva Björk Ægisdóttir

Gunnlaugur Jónsson var afar ánægður með leik Skaga í kvöld eftir 4:2 sigurinn á Keflavík á Akranesi í kvöld. Fyrir leikinn hafði ÍA aðeins skorað fjögur mörk í fyrstu átta leikjunum en í kvöld skoraði liðið fjögur í einum leik.

„Það er mjög jákvæð breyting á okkar leik,“ sagði Gunnlaugur inntur eftir viðbrögðum við þeirri staðreynd. 

Það  hefði samt ýmislegt mátt fara betur að mati Gunnlaugs.

„Við vorum mjög ógnandi í fyrri hálfleik og sýndum karakter. Við lendum tvisvar undir í þessum leik og komum til baka og komust í 3:2. Við vorum samt í smá basli inni á miðjunni með þeirra spil. Þetta voru að mínu mati frekar ódýr mörk sem við fengum á okkur. Hann Sindri (Snær Magnússon) var óþarflega laus fyrir utan teig,“ sagði Gunnlaugur sem var ánægður með innkomu Marko Andelkovic í leiknum.

„Í byrjun seinni hálfleiks erum við bara í vandræðum. Það er ekki fyrr en Marko (Andelkovic) kemur inn á miðjuna sem að við náum að snúa þessu aðeins. Hann kemur með ró á boltann og breytir aðeins leiknum,“ sagði Gunnlaugur.

Skagamenn voru hins vegar heppnir að fá ekki á sig mark í seinni hálfleik en Árni Snær Ólafsson varði meðal annars vítaspyrnu frá Hólmari Erni Rúnarssyni.

„Við erum að fá ákveðna hluti með okkur, Árni ver frábærlega víti. Það var ákveðin lukka í þessu. Holningin var ekkert sérstök á varnarleiknum sem er ólíkt síðasta leik gegn KR. Þar vorum við góðir varnarlega. Það er mjög jákvætt að vinna leiki þegar við erum ekki alveg upp á 10 varnarlega,“ sagði Gunnlaugur.

Hann hrósaði einnig í hástert Ásgeiri Marteinssyni sem spilaði frábærlega í fremstu víglínu ÍA í kvöld og átti hrósið sannarlega skilið.

„Það verður að viðurkennast að tilkoma Ásgeirs Marteinssonar í fremstu línu hefur lífgað upp á leik liðsins. Hann hefur komið frábærlega inn, bæði á móti KR og í kvöld var hann gríðarlega ógnandi. Hann skoraði verðskuldað mark þarna undir lokin,“ sagði Gunnlaugur.

mbl.is