Hólmbert er farinn til KR

Hólmbert Aron Friðjónsson
Hólmbert Aron Friðjónsson Ómar Óskarsson

Knattspyrnumaðurinn Hólmbert Aron Friðjónsson er genginn í raðir KR-inga í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Þetta staðfesti Kristinn Kjærnested formaður KR við mbl.is nú í kvöld en samningur kappans er til ársins 2017.

Samkvæmt fréttum síðustu daga hefur Hólmbert verið í viðræðum við Valsara og Blika en kappinn ákvað á endanum að semja við KR-inga sem hefur vantað meiri breidd í framlínu sína í sumar.

Hólmbert verður löglegur með KR þann 15. júlí þegar félagsskiptaglugginn opnar en hans fyrsti leikur verður mögulega á móti FH í Kaplakrika 19. júlí. 

Hólmbert er 22 ára gamall og fór út í atvinnumennsku eftir frábært tímabil með Fram árið 2013 þar sem hann skoraði 10 mörk. Celtic keypti hann en þar fann Hólmbert sig ekki og fór að lokum á láni til danska félagsins Bröndby áður en hann sneri aftur heim til Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert