Vestri ræður ríkjum á Vestfjörðum

BÍ/Bolungarvík mun leika undir merkjum Vestra.
BÍ/Bolungarvík mun leika undir merkjum Vestra. mbl.is/Eggert

Samþykkt hefur verið að nýtt íþróttafélag á norðanverðum Vestfjörðum muni bera nafnið Vestri. Kosið var á milli tveggja nafna, Vestra og ÍV (Íþróttafélag Vestfjarða), að því greint er frá á bb.is.

Nýtt félag er ennþá óstofnað, en það mun leiða saman Boltafélag Ísafjarðar, Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar, Blakfélagið Skell, Sunddeild Vestra og knattspyrnudeild Ungmennafélags Bolungarvíkur.

„Vestri hlaut kosningu með talsvert miklum yfirburðum. Það bárust 800 atkvæði í báðum umferðum og við í sameiningarnefndinni erum mjög ánægð með þátttökuna,“ segir Hjalti Karlsson sem leiðir sameiningarnefnd íþróttafélaganna.

Þegar þetta verður gengið í gegn mun Vestri m.a. koma í stað BÍ/Bolungarvíkur í knattspyrnunni, KFÍ í körfuboltanum og Skells í blakinu.

mbl.is