Blikar stimpla sig inn í toppbaráttuna

Elfar Freyr Helgason og Þórir Guðjónsson eigast við í leiknum …
Elfar Freyr Helgason og Þórir Guðjónsson eigast við í leiknum á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

Breiðablik minnti á sig í toppbaráttu Pepsi-deildar karla eftir sigur á Fjölni í Kópavoginum í kvöld, 2:0, en Blikar komust með sigrinum upp í þriðja sætið og eru einungis tveimur stigum á eftir toppliði FH.

Leikurinn var ansi lengi í gang, en blautur völlurinn gerði mönnum erfitt að fóta sig og ljóst var að leikurinn myndi vinnast eða tapast á miðsvæðinu. Þegar líða tók á fyrri hálfleikinn náðu Blikar yfirhöndinni án þess þó að ná að skapa sér færi að ráði, en það sama átti við um Fjölnismenn

Á 38. mínútu fengu Blikar aukaspyrnu rétt utan teigs hægra megin þegar Andri Yeoman var felldur. Flestir bjuggust við að örvfættur Atli Sigurjónsson myndi taka spyrnuna, en Oliver Sigurjónsson lét hins vegar vaða, skrúfaði boltann hægra megin við vegginn og í bláhornið.

Aron Sigurðarson fékk besta færi Fjölnismanna skömmu eftir markið, en Gunnleifur Gunnleifsson sá við honum. 1:0 fyrir Blika í hálfleik. Fjölnismenn komu af krafti inn í síðari hálfleikinn, en gekk illa að skapa sér færi. Sem fyrr fór leikurinn að mestu fram á miðsvæðinu og einkenndist frekar af barningi en lipurri knattspyrnu.

Það dró hins vegar til tíðinda á ný á 70. mínútu. Kristinn Jónsson lék listir sínar á vinstri vængnum sem fyrr, sendi boltann fyrir markið þar sem fyrirliðinn Arnór Sveinn Aðalsteinsson var á fjærstönginni og skallaði boltann í markið. Góð samvinna hjá bakvörðunum tveimur.

Fjölnismenn reyndi hvað þeir gátu síðustu tuttugu mínúturnar en sem fyrr varð þeim lítið ágengt á síðasta þriðjungi vallarins. Leikurinn fjaraði að lokum út, lokatölur 2:0 og eru Blikar nú með 22 stig í þriðja sætinu, tveimur frá toppnum. Fjölnir er í því fimmta með 17 stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld.

Breiðablik 2:0 Fjölnir opna loka
90. mín. Fjölnismenn halda áfram að reyna en það vantar bit á síðasta þriðjungnum. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert