Ólafur fékk brasilískt vatnsbað í miðju viðtali

Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari nýbakaðra bikarmeistara Stjörnunnar, var skiljanlega sáttur eftir 2:1-sigur á Selfossi í úrslitaleik bikarsins á Laugardalsvelli í dag. Stjarnan skoraði bæði mörkin á síðustu átta mínútum leiksins.

„Við sáum ákafan í liðinu, við ætluðum okkur þessa hluti og búin að stefna að þessu frá í fyrra þegar við unnum þá. Karakterinn í liðinu að halda áfram og berjast og berjast þrátt fyrir þennan erfiða mánuð hjá okkur, en leikmennirnir kláruðu þetta frábærlega,“ sagði Ólafur við mbl.is.

Ólafur var í miðju viðtali við mbl.is þegar brasilísku landsliðskonurnar Poliana og Francielle komu honum á óvart og hylltu hann með vatnsbaði eins og sjá má í myndskeiðinu. Hann tók atvikinu vel, enda léttur í lund eftir sigurinn.

„Þær fara til Brasilíu á morgun þessar,“ sagði Ólafur og hló. „Ég átti þetta inni hjá þeim, þetta var flott,“ sagði Ólafur Þór, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði þar sem þær brasilísku fara á kostum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert