Hallgrímur aftur til KA-manna

Srdjan Tufegdzic þjálfari KA, Hallgrímur Mar Steingrímsson og Eiríkur S. ...
Srdjan Tufegdzic þjálfari KA, Hallgrímur Mar Steingrímsson og Eiríkur S. Jóhannsson, formaður knattspyrnudeildar, eftir að gengið var frá samningnum í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hallgrímur Mar Steingrímsson er genginn til liðs við knattspyrnulið KA á nýjan leik eftir eins árs fjarveru en hann lék með Víkingum í Reykjavík á nýliðnu keppnistímabili. Hallgrímur samdi við KA til fjögurra ára nú síðdegis.

„Þetta kom upp fyrir hálfum mánuði og ég var strax heitur fyrir því að fara aftur norður, af persónulegum ástæðum. Ég er feginn að KA og Víkingur náðu saman um félagaskiptin," sagði Hallgrímur við mbl.is rétt í þessu.

Hallgrímur er 25 ára gamall miðjumaður eða kantmaður og kemur frá Húsavík en hann lék með Völsungi fyrstu árin. Hann spilaði með KA frá 2009 til 2014 í 1. deildinni og þrjú síðustu tímabilin þar gerði hann samtals 22 mörk fyrir liðið í deildinni.

Í ár lék Hallgrímur 14 leiki með Víkingi í Pepsi-deildinni og skoraði 4 mörk en hann missti af fyrstu átta umferðum tímabilsins vegna meiðsla.

KA hafnaði í þriðja sæti 1. deildar í ár og var þremur stigum á eftir Þrótti úr Reykjavík sem náði öðru sætinu og fór upp ásamt Víkingum í Ólafsvík. Ljóst er að KA stefnir að því fullum fetum að vinna sér sæti í efstu deild.

Hallgrímur Mar Steingrímsson semur við KA fyrir nokkrum árum. Til ...
Hallgrímur Mar Steingrímsson semur við KA fyrir nokkrum árum. Til hægri er þáverandi formaður knattspyrnudeildar félagsins, Gunnar Níelsson. Hallgrímur gekk til liðs við KA á ný í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is