Breytt fyrirkomulag í deildabikarnum

Breiðablik vann Lengjubikarinn í fyrra og Arnór Sveinn Aðalsteinsson fyrirliði …
Breiðablik vann Lengjubikarinn í fyrra og Arnór Sveinn Aðalsteinsson fyrirliði lyfti bikarnum eftir sigur á KA í Kórnum. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Dregið hefur verið í riðla fyrir deildabikarkeppni karla í knattspyrnu, Lengjubikarinn, og þar verður breytt fyrirkomulag í A-deildinni en í henni leika öll 24 liðin í tveimur efstu deildunum.

Tvö félög þreyta nú frumraun sína í A-deildinni en það eru Austfjarðaliðin Huginn á Seyðisfirði og  Leiknir á Fáskrúðsfirði, sem leika á næsta ári í fyrsta skipti í 1. deild. Leiknismenn munu m.a. mæta Íslandsmeisturum FH og nöfnum sínum úr Breiðholtinu og Huginn mætir bæði Stjörnunni og Val.

Breiðablik á titil að verja eftir að hafa sigrað KA, 1:0, í úrslitaleik keppninnar í Kórnum síðasta vor.

Liðunum 24 verður nú raðað niður í fjóra riðla í stað þriggja áður. Liðin eru því sex í hverjum riðli og spila fimm leiki hvert, en voru áður átta og spiluðu sjö leiki hvert. Tvö efstu liðin fara í átta liða úrslit.

Riðlarnir eru þannig skipaðir:

1. riðill: Stjarnan, Valur, ÍBV, Keflavík, Fram og Huginn.

2. riðill: Breiðablik, Fylkir, Víkingur Ó., KA, Fjarðabyggð og Selfoss.

3. riðill: KR, ÍA, Víkingur R., Grindavík, Haukar og HK.

4. riðill: FH, Fjölnir, Þróttur R., Leiknir R., Þór, Leiknir F.

Samkvæmt drögum að niðurröðun hefst deildabikarinn 12. febrúar og átta liða úrslitin hefjast 10. apríl. Úrslitaleikur keppninnar er fyrirhugaður miðvikudaginn 20. apríl, síðasta vetrardag.

Í A-deild kvenna er óbreytt fyrirkomulag en þar leika sex efstu liðin frá síðasta Íslandsmóti í A-deildinni. Það eru Breiðablik, Stjarnan, Selfoss, Þór/KA, ÍBV og Fylkir.

Fjögur neðstu liðin ásamt tveimur efstu liðum 1. deildar leika í B-deildinni og önnur lið í C-deildinni.

Riðlaskipting í Lengjubikarnum, öllum deildum karla og kvenna.

Stjörnukonur með Lengjubikarinn 2014 en þær unnu Breiðablik 3:0 í …
Stjörnukonur með Lengjubikarinn 2014 en þær unnu Breiðablik 3:0 í úrslitaleiknum. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is