Almarr tryggði KR sigur á FH

Almarr Ormarsson skoraði sigurmark KR.
Almarr Ormarsson skoraði sigurmark KR. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

KR sigraði FH, 2:1, í fyrsta leiknum á Fótbolta.net mótinu í knattspyrnu sem fram fór í Fífunni í Kópavogi í kvöld. Reykjavíkurmótið og Norðurlandsmótið byrjuðu einnig í kvöld.

FH náði forystunni seint í fyrri hálfleik með marki frá Steven Lennon og var yfir þar til Gary Martin jafnaði á 77. mínútu, beint úr aukaspyrnu.

Það var síðan Almarr Ormarsson sem skoraði sigurmarkið í uppbótartíma leiksins.

ÍA og Þróttur R. eru í sama riðli og eigast við í Akraneshöllinni á morgun.

Reykjavíkurmót karla hófst einnig í kvöld og þar urðu óvænt úrslit þegar Víkingur mátti sætta sig við 3:3 jafntefli gegn 2. deildarliði ÍR í Egilshöllinni.

Stefán Þór Pálsson skoraði tvö marka Víkings og Ívar Örn Jónsson eitt en Jóhann Arnar Sigurþórsson, Andri Jónason og Arnór Björnsson gerðu mörk ÍR. Arnþór Ingi Kristinsson úr Víkingi fékk rauða spjaldið á 78. mínútu en ekki var skorað eftir það.

Í Boganum á Akureyri vann Þór auðveldan sigur á b-liði KA, 6:0, í fyrsta leik Kjarnafæðismótsins, eða Norðurlandsmótsins. Jóhann Helgi Hannesson gerði þrjú fyrstu mörk Þórs, Bessi Víðisson skoraði tvö og Jónas Sigurbergsson eitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert