Viðar Örn opnaði markareikning sinn

Viðar Örn Kjartansson skoraði sitt fyrsta landsliðsmark gegn Sameinuðu arabísku ...
Viðar Örn Kjartansson skoraði sitt fyrsta landsliðsmark gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum í dag. Eggert Jóhannesson

Ísland og Sameinuðu arabísku furstadæmin mættust í þriðja skipti í vináttulandsleik á Al Maktoum leikvangnum í Dubai í dag. Þetta var annar leikur íslenska liðsins í ferð sinni til Sameinuðu arabísku furstadæmanna en áður hafði íslenska liðið borið sigur úr býtum gegn Finnlandi með einu marki gegn engu.

Lokatölur í leiknum í dag urðu 2:1 Sameinuðu arabísku furstadæmunum í vil, en þetta er í fyrsta skipti sem Ísland tapar fyrir Furstunum í landsleik.  

Viðar Örn Kjartansson kom Íslandi yfir á 13. mínútu leiksins með fyrsta landsliðsmarki sínu í áttunda landsleik sínum. Viðar Örn skoraði með hnitmiðuðum skalla eftir hárnákvæma sendingu frá Andrési Má Jóhannessyni sem lék vel í stöðu hægri bakvarðar í sínum fyrsta landsleik.

Andrés Már nýtti tækifærið vel í frumraun sinni með íslenska landsliðinu. Andrés skilaði verki sínu varnarlega vel og átti fjölmargar fínar fyrirgjafir inn á vítateig Furstanna.  

Furstarnir jöfnuðu síðan metin um miðjan seinni hálfleikinn og þar var að verki Ismail Alhammadi sem fékk góða sendingu inn fyrir vörn íslenska liðsins frá Omar Abdulrahman. Alhammadi lék á Ingvar Jónsson, markvörð íslenska liðsins, með móttöku sinni og skoraði i autt markið.  

Það var svo Ali Mabkhout sem kom Furstunum yfir með glæsilegu marki í upphafi seinni hálfleiks. Mabkhout tók þá boltann á lofti milli vítateigslínunnar og vítapunktsins og skaut viðstöðulausu skoti neðst í fjærhornið sem Ingvar Jónsson átti ekki möguleikur á að verja.

Ingvar Jónsson átti fínan leik í marki íslenska liðsins og ekki hægt að saka hann um mörkin sem íslenska liðið fékk á sig. Furstarnir eru með léttleikandi lið og þeir náðu á köflum að opna vörn íslenska liðsins full auðveldlega með hröðu spili sínu.

Rúnar Már Sigurjónsson spilaði vel inni á miðsvæðinu. Rúnar Már var öflugur í návígum sínum og skilaði boltanum vel frá sér. Emil Pálsson átti hins vegar erfitt uppdráttar í sínum fyrsta landsleik.

Arnór Ingvi Traustason og Elías Már Ómarsson létu ekki nógu mikið til sín taka á köntunum. Elías Már kom sér á köflum í góðar stöður, en náði ekki að klára aðgerðir sínar með nægjanlega afgerandi hætti.

Viðar Örn var hættulegur í upphafi leiks, en týndist svo þegar leið á leikinn. Hlutirnir þróuðust öfugt hjá Eiði Smára Guðjohnsen, en hann fór rólega af stóð og óx svo ásmegin eftir því sem leið á leikinn. Eiður Smári lagði upp nokkur góð færi fyrir félaga sína og hélt boltanum vel framarlega á vellinum.

Leikur íslenska liðsins var heilt yfir kaflaskiptur, liðið sýndi lipra takta inni á milli þess sem liðinu gekk illa að komast í boltann og halda boltanum innan liðsins. Varnarskipulagið riðlaðist nokkuð illa nokkrum sinnum í leiknum og það er eitthvað sem landsliðsþjálfararnir munu líklega fara yfir í framhaldinu.

Fín innkoma Andrésar Más, góð spilamennska Rúnars Más inni á miðsvæðinu, opnun á markareikningi hjá Viðari Erni og fínt líkamlegt ástand Eiðs Smára Guðjohnsen glöddu augað mest í þessum leik.     

Furstadæmin 2:1 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 2:1 sigri Furstanna.
mbl.is