Alfreð á leið til Augsburg

Alfreð Finnbogason fagnar marki gegn Arsenal.
Alfreð Finnbogason fagnar marki gegn Arsenal. AFP

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum mbl.is er landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason á leið til þýska liðsins Augsburg.

Alfreð mun gangast undir læknisskoðun hjá þýska liðinu á morgun og að henni lokinni mun hann skrifa undir samning við félagið. Að því er heimildir mbl.is herma þá greiðir Augsburg 4 milljónir evra fyrir Alfreð en sú upphæð jafngildir um 570 milljónum króna.

Alfreð, sem verður 27 ára gamall á morgun, er samningsbundinn spænska liðinu Real Sociedad en hann var lánaður til gríska liðsins Olympiacos fyrir tímabilið. Þar hefur hann lítið fengið að spreyta sig og hefur aðeins komið við sögu í sjö leikjum liðsins í deildinni þar sem hann hefur skorað eitt mark og þá skoraði hann sigurmark liðsins gegn Arsenal í Meistaradeildinni á Emirates Stadium.

Augsburg er í 12. sæti í þýsku deildinni. Liðið er í Evrópudeildinn þar sem andstæðingurinn verður Liverpool en Alfreð er ekki hlutgengur þar sem hann hefur spilað með Olympiacos í Meistaradeildinni.

mbl.is