Ásgerður áfram hjá Stjörnunni

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, leikmaður Stjörnunnar.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, leikmaður Stjörnunnar. Eva Björk Ægisdóttir

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, verður áfram í Stjörnunni, en hún staðfesti þetta við mbl.is í kvöld.

Ásgerður, sem er 29 ára gömul, var á leið til sænska úrvalsdeildarfélagsins Kristianstad, en átti þó eftir að semja við félagið. Hún lék fyrstu umferðirnar með Kristianstad síðasta vetur, en kom svo aftur heim í Stjörnuna fyrir Íslandsmótið.

Sænskir miðlar greindu frá því í janúar að Ásgerður væri á leið til Kristianstad og átti aðeins eftir að setja blekið á pappírinn, en hún hefur tekið ákvörðun um að vera áfram hjá Stjörnunni.

„Ég verð heima. Það eru persónulegar ástæður svona að stærstum hluta. Ég hef verið ótrúlega mikið meidd síðustu þrjú ár og hef verið að glíma við álagsmeiðsli, það er stór hluti af þessari ákvörðun,“ sagði Ásgerður við mbl.is í kvöld.

„Ég er spennt fyrir þessu. Það er breyttur hópur og öðruvísi áskorun fyrir okkur núna þar sem við erum búnar að missa leikmenn og fleiri lið í kringum okkur eru að fá leikmenn. Það eru komin fleiri lið sem eru að styrkja sig, leikmenn úr atvinnumennskunni að koma heim og deildin verður með skemmtilegra móti í sumar heldur en hún hefur verið.“

„Það er þannig í Garðabænum að við ætlum okkur alltaf stóra titla. Við vorum svekkt í fyrra að hafa ekki tekið Íslandsmeistaratitilinn, en það var smá sárabót að ná bikarnum og standa okkur svona allt í lagi í Evrópukeppninni. Við setjum stefnuna á að taka Íslandsmeistaratitilinn eins og þrjú önnur lið gera.“

Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad og hefur verið undanfarin ár, en hún tók ákvörðun Ásgerðar afar vel.

„Elísabet tók þessu vel. Aðalástæðan er að þetta eru persónulegar ástæður og ég þekki Betu vel, hún náttúrlega þjálfaði mig hjá Breiðabliki og við erum í góðu sambandi. Hún skilur mína ákvörðun vel og við ætlum að vera áfram í sambandi,“ sagði hún að lokum.

Sandra Sigurðardóttir gekk til liðs við Val á dögunum á meðan Anna Björk Kristjánsdóttir fór í Örebro. Það er því mikill hvalreki, ef svo má segja, að Ásgerður verður áfram hjá félaginu.

mbl.is