Pirlo og Villa lögðu KR - myndskeið

Fyrirliðarnir Indriði Sigurðsson og David Villa heilsast fyrir leikinn.
Fyrirliðarnir Indriði Sigurðsson og David Villa heilsast fyrir leikinn. Ljósmynd/@KRreykjavik

Bandaríska liðið New York City sigraði KR, 2:1, í síðasta leiknum á alþjóðlegu knattspyrnumóti í Bradenton í Flórída.

Þetta var þriðji og síðasti leikur KR á mótinu en Vesturbæingar höfðu áður gert 2:2 jafntefli við Cincinnati frá Bandaríkjunum og tapað 1:2 fyrir HB Köge frá Danmörku.

Ítalinn Andrea Pirlo og Spánverjinn David Villa  voru báðir í byrjunarliði New York en Englendingurinn Frank Lampard lék ekki með. Þjálfari liðsins er Patrick Vieira og þetta var lokaleikur þess áður en keppni hefst í MLS-deildinni.

KR-ingar náðu forystunni strax á 8. mínútu þegar Óskar Örn Hauksson skoraði með föstu skoti rétt innan vítateigs. Óskar var búinn að fá dauðafæri rétt á undan.

KR missti síðan varnarmanninn reynda Indriða Sigurðsson meiddan af velli á 18. mínútu og þremur mínútum síðar jafnaði Andrea Pirlo fyrir New York með hörkuskoti rétt utan vítateigs eftir sendingu frá David Villa, 1:1. Fyrsta mark hans fyrir félagið.

New York fékk vítaspyrnu í byrjun síðari hálfleiks en Villa skaut í stöngina á marki KR. Jafntefli blasti við en sjö mínútum fyrir leikslok skoraði bandaríski landsliðsmaðurinn Mix Diskerud sigurmarkið með hörkuskalla, 2:1.

Twitter-færslur frá leiknum í Flórída þar sem m.a. má sjá liðin ganga inná völlinn og Andrea Pirlo jafna metin í 1:1: 

mbl.is