Hafði góða tilfinningu fyrir úrslitunum

Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Atli Sigurjónsson kom inn á sem varamaður á 52. mínútu og skoraði annað mark Breiðabliks gegn Stjörnunni í Pepsí-deildinni í kvöld. 

Breiðablik hafði betur 3:1 en öll mörkin komu á síðustu tuttugu mínútum leiksins. „Ég veit ekki hvernig þetta leit út fyrir hlutlausan aðila en að horfa á þetta og spila, þá leið mér allan tímann vel. Mér fannst við vera með'etta og hafði trú á því að úrslitin yrðu okkur í hag. Það var kannski ekki auðvelt að koma inn á sem varamaður í leikinn en ég hafði einhvern veginn góða tilfinningu fyrir úrslitunum,“ sagði Atli þegar mbl.is ræddi við hann í kvöld. 

Breiðablik er á toppnum með 12 stig, stigi á undan þremur öðrum liðum og tveimur stigum á undan tveimur til viðbótar. Breiðablik hefur í síðustu tveimur leikjum unnið KR og Stjörnuna. „Það er ágætt að fá sex stig út úr svona risaleikjum og við verðum bara að halda því áfram. Þetta er ágætis „run“ ef hægt er að tala um „run“ í tveimur leikjum en við þurfum að halda þessari stemningu,“ sagði Atli Sigurjónsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert