Þriðji sigur ÍA í röð

ÍA vann sinn þriðja leik í röð þegar liðið sótti Breiðablik heim í 10. umferð Pepsi-deildar karla. Lokatölur urðu 1:0 Skagamönnum í vil og það var markahrókurinn Garðar Gunnlaugsson sem skoraði sigurmarkið, strax á 11. mínútu.

ÍA er þá komið með 13 stig og fer uppfyrir Víking R. og KR í 8. sæti deildarinnar en Breiðablik er dottið niður í fimmta sætið með 16 stig.

Breiðablik vann góðan útisigur gegn ÍBV 15. júni en Blikar hafa verið í töluverðu basli síðan. Steindautt markalaust  jafntefli gegn Val og brotthvarf úr Evrópukeppninni fylgdu í kjölfarið og ekki náðu lærisveinar Arnars Grétarssonar að rétta við skútuna í þessum leik gegn ÍA.

Breiðablik var meira með boltann í fyrri hálfleik en eins og nýafstaðið Evrópumót sannaði, þá hefur það lítið að segja ef menn koma ekki blöðrunni í netið. Eftir nokkra pressu Breiðabliks í upphafi leiks, kom mark ÍA eins og blaut tuska framan í Blika á 11. mínútu.

Iain Williamson sendi boltann í fallegum boga inn í teiginn beint úr aukaspyrnu og þar með markavélin Garðar B. Gunnlaugsson. Garðar hefur farið á kostum undanfarið og hann skallaði boltann hárnákvæmt framhjá Gunnleifi GUnnleifssyni, markverði Breiðabliks.

Þetta var níunda mark Garðars í Pepsi-deildinni og hann hefur skorað tveimur mörkum meira en næsti maður, Hrvoje Tokic. Þetta var jafnframt 50. markið sem Garðar skorar í efstu deild hérlendis.

Breiðablik hélt áfram að halda boltanum vel en hröð upphlaup Skagamanna voru stöðug ógn. Gísli Eyjólfsson átti tvö góð skot fyrir Blika og Ellert Hreinsson komst í ágætt færi efti rundirbúning Daniels Bamberg en inn vildi boltinn ekki.

Staðan að loknum 45 mínútum var því 1:0, Skagamönnum í vil.

Seinni hálfleikur gekk þannig fyrir sig að Breiðablik sótti látlaust en ÍA varðist af feikilegum krafti. Heimamenn reyndu og reyndu en ekkert gekk.

Varamaðurinn Jonathan Glenn kom reyndar boltanum í markið hjá ÍA en var dæmdur rangstæður eftir skot Davíðs Ólafssonar. Blikar voru mjög ósáttir en ákvörðun dómarans var ekki haggað.

Skagamenn héngu á þessu eina marki og lönduðu sætum sigri, sínum þriðja í röð. Allt annað er að sjá til ÍA núna en í upphafi móts og bjart yfir Skipaskaga.

Breiðablik er hins vegar í ólgusjó og þar Arnar Grétarsson, þjálfari að finna einhverjar lausnir á því sem er að hrjá sterkan leikmannahóp liðins.

Breiðablik 0:1 ÍA opna loka
90. mín. Leik lokið Sterkur sigur gestanna og þeirra þriðji í röð. Takk í kvöld.
mbl.is