Kaj Leo í fótspor föður síns

Kaj Leo í Bartalsstovu.
Kaj Leo í Bartalsstovu. Ljósmynd/fsf.fo

Kaj Leo í Bartalsstovu, færeyski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu sem gekk til liðs við FH í gær, er ekki sá fyrsti í fjölskyldunni sem spilar í efstu deild á Íslandi.

Hann fetar nú í fótspor föður síns sem einnig hefur leikið í efstu deild hér á landi. Hans Leo í Bartalsstovu, faðir hans, sem að öðru leyti lék allan sinn feril með GÍ frá Götu, spilaði með Víkingi í Reykjavík sumarið 1984, og lék einnig með færeyska A-landsliðinu á sínum tíma.

Líkast til verða þeir Kaj Leo og Hans Leo fyrstu erlendu feðgarnir til að spila í efstu deild hér á landi.

Kaj, sem er 25 ára sóknartengiliður eða hægri kantmaður, er alinn upp hjá Víkingi Færeyjum en það félag var stofnað við samruna GÍ frá Götu og LÍF frá Leirvík. Þar spilaði hann fjögur tímabil með aðalliði félagsins og skoraði 23 mörk í 102 leikjum í færeysku úrvalsdeildinni.

Kaj fór frá færeyska félaginu til Levanger í Noregi þar sem hann spilaði í tvö ár, í C-deildinni 2014 og B-deildinni 2015. Í janúar samdi hann við eitt stærsta félag Rúmeníu, Dinamo Búkarest, og samdi til hálfs annars árs. Hann lék sex deildaleiki með liðinu frá febrúar og til vors en það hafnaði í öðru sæti rúmensku A-deildarinnar.