Gunnleifur náði stórum áfanga

Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, varð í gærkvöld þriðji leikjahæsti leikmaðurinn í sögu deildakeppni Íslandsmótsins í knattspyrnu þegar hann varði mark Kópavogsliðsins gegn Fylki í Pepsi-deild karla.

Gunnleifur lék í gærkvöld sinn 365. leik á Íslandsmótinu og fór upp fyrir Vilberg Jónasson sem lék stærstan hluta síns ferils með Leikni á Fáskrúðsfirði. Þeir einu sem hafa leikið fleiri leiki en Gunnleifur eru Gunnar Ingi Valgeirsson frá Hornafirði, sem er kominn með 402 leiki og spilar enn með GG frá Grindavík í 4. deild, og Mark Duffield sem lék 400 leiki á árunum 1980 til 2006.

Gunnleifur varð 41 árs gamall í júlí og hann þyrfti að spila í minnst tvö ár í viðbót til þess að komast í annað tveggja efstu sætanna á listanum.

Gunnleifur lék sína fyrstu leiki á Íslandsmótinu með HK árið 1994, í næstefstu deild, einbeitti sér að handbolta árið eftir en tók upp þráðinn með KVA frá Reyðarfirði og Eskifirði árið 1996 og hefur spilað samfleytt síðan. Ferill hans er sem hér segir:

HK 1994, 1997 og 2002-2009: 39 leikir í úrvalsdeild, 83 í 1. deild og 36 í 2. deild (1 mark).

KVA 1996: 16 leikir í 3. deild (1 mark).

KR 1998-1999: 11 leikir í úrvalsdeild.

Keflavík 2000-2001: 36 leikir í úrvalsdeild.

FH 2010-2012: 65 leikir í úrvalsdeild.

Breiðablik 2013-2016: 79 leikir í úrvalsdeild.

Gunnleifur hefur því leikið 230 leiki í úrvalsdeild, 83 í 1. deild, 36 í 2. deild og 16 í 3. deild. Þar fyrir utan spilaði hann fimm leiki með Vaduz í efstu deild í Sviss árið 2009.

Tíu leikjahæstu leikmenn íslensku deildakeppninnar eru nú þessir:

402 Gunnar Ingi Valgeirsson, 1984-2016
400 Mark Duffield, 1980-2006
365 Gunnleifur Gunnleifsson, 1994-2016
364 Vilberg M. Jónasson, 1988-2013
360 Gestur Gylfason, 1987-2010
358 Ingvar Þór Ólason, 1991-2012
358 Hjörtur J. Hjartarson, 1994-2015
347 Valdimar K. Sigurðsson, 1989-2014
346 Kristján Finnbogason, 1989-2013
339 Birkir Kristinsson, 1983-2006

Þá hefur Gunnleifur nú spilað 80 leiki í röð í efstu deild, án þess að missa úr leik, en hann hefur verið með í öllum leikjum sinna félaga frá því hann sat hjá í næstsíðasta leik FH í deildinni haustið 2012, gegn ÍBV. Enginn núverandi leikmanna deildarinnar hefur spilað jafnlengi samfleytt.

Næstur á eftir honum er markvörðurinn sem leysti hann af hólmi í umræddum leik, Róbert Örn Óskarsson, sem hefur spilað 58 leiki í röð með FH og síðan Víkingi R. Róbert spilaði einmitt sinn fyrsta leik í efstu deild þegar hann lék í stað Gunnleifs gegn ÍBV.

Þess má geta að markvörðurinn Kristján Finnbogason, sem var einmitt keppinautur Gunnleifs um sæti í liði KR árin 1998 og 1999 og er í níunda sæti listans, er enn varamarkvörður FH en hefur ekki spilað leik á Íslandsmótinu frá 2013.

mbl.is