Helena Ólafsdóttir tekur við ÍA

Frá vinstri sitjandi: Sævar Freyr Þráinsson, varaformaður KFÍA, Helena Ólafsdóttir, …
Frá vinstri sitjandi: Sævar Freyr Þráinsson, varaformaður KFÍA, Helena Ólafsdóttir, Magnús Guðmundsson, formaður KFÍA. Fyrir aftan standa núverandi þjálfarar Steindóra Steinsdóttir og Kristinn Guðbrandsson. Ljósmynd/ÍA

Helena Ólafsdóttir hefur verið ráðin þjálfari meistaraflokks kvenna fyrir næsta tímabil hjá Knattspyrnufélagi ÍA. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ÍA.

Helena mun því taka við liðinu af þeim Kristni Guðbrandssyni og Steindóru Steinsdóttur sem eins og áður hefur verið greint frá munu klára tímabilið með liðið í Pepsi-deild. Kristinn og Steindóra munu áfram vera í baklandi meistaraflokks kvenna auk þess að sinna fleiri verkefnum hjá félaginu.

Helena Ólafsdóttir hefur víðtæka reynslu af kvennaknattspyrnu. Hún starfaði síðast sem þjálfari hjá FK Fortuna í Álasund í Noregi. Þar áður þjálfaði hún meistaraflokk hjá FH, Selfoss, KR og Val. Helena þjálfaði einnig A-landslið kvenna 2003-2004.

Helena var á sínum tíma sigursæll leikmaður og varð margfaldur Íslandsmeistari með KR á árunum 1993-1999. Hún lék einnig með liði ÍA og varð m.a. bikarmeistari með liðinu árið 1992. Helena lék 8 A-landsleiki fyrir Ísland.

Aníta Lísa Svansdóttir verður aðstoðarmaður Helenu en hún er fyrrverandi leikmaður ÍA. Hún mun jafnframt þjálfa annan flokk kvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert