FH-ingar færast nær titlinum

Árni Vilhjálmsson skoraði mark Breiðabliks og er hér með boltann ...
Árni Vilhjálmsson skoraði mark Breiðabliks og er hér með boltann en Böðvar Böðvarsson sækir að honum. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsmeistarar FH-inga endurheimtu sjö stiga forskoti á toppi Pepsi-deildar karla í knattspyrnu eftir 1:1 jafntefli við Breiðablik í Kaplakrika í kvöld.

FH-ingar færðust þar með skrefi nær titlinum og þeir gengu sáttari af velli heldur en Blikarnir sem eru í harðri baráttu um Evrópusæti en þeir eru jafnir Fjölni í 2.-3. sæti deildarinnar

Árni Vilhjálmsson kom Blikunum yfir þegar komst einn í gegnu vörn FH-inga eftir mistök Bergsveins Ólafssonar miðvarðar FH-liðsins. Markið kom á 32. mínútu en leikmenn Breiðabliks voru varla hættir að fagna markinu þegar Kristján Flóki Finnbogason jafnaði metin eftir góðan undirbúning Böðvars Böðvarssonar.

Leikurinn var í járnum mest allan leikinn og lítið um opin færi en til þess að hleypa einhverri spennu í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn hefðu Blikarnir þurft að landa sigri en þeim hefur ekki tekist að leggja FH-inga í Kaplakrika í efstu deild í 21 ár. Jafntefli voru í heildina séð sanngjörn úrslit eins og leikurinn þróaðist.

FH er með 38 stig í efsta sætinu en Breiðablik og Fjölnir hafa 31.

FH 1:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Leik lokið +3
mbl.is