Dýrkar Víking og reynir allt til að flytja til Íslands

Fabrizio Rossi elskar Víking og framherjinn Gary Martin, sem nú …
Fabrizio Rossi elskar Víking og framherjinn Gary Martin, sem nú er á láni hjá Lilleström, hefur reynst honum afar vel. mbl.is/Eggert

Fabrizio Rossi býr í Ríó í Brasilíu en af skrifum hans á Facebook að dæma er hann einhver grjótharðasti stuðningsmaður Víkings í Reykjavík sem um getur.

Rossi birti pistil á Facebook í dag þar sem hann segir frá sambandi sínu við Víking og dásamar hve nærri félaginu, leikmönnum og þjálfurum, hinn almenni stuðningsmaður geti staðið. Hann kveðst hafa kynnst fjölda Íslendinga og þakkar Milos Milojevic þjálfara sérstaklega fyrir að hafa útvegað sér keppnistreyju liðsins, og framherjanum Gary Martin fyrir að hafa einnig verið afar hjálpsamur.

Fyrir Rossi eru leikdagar hjá Víkingi algjörlega heilagir. Hann reynir allt til að sjá leikina í gegnum netstreymi en fylgist annars með gangi mála á vefsíðum. Ekkert er honum mikilvægara en þessir tveir klukkutímar sem fara í hvern leik hjá Víkingi:

Fabrizio Rossi í Víkingsbúningnum.
Fabrizio Rossi í Víkingsbúningnum. Ljósmynd/Facebook

„Þess vegna lít ég á sjálfan mig sem líklega mesta stuðningsmann Víkings utan Íslands. Vonandi verður það ekki þannig mikið lengur, því við Tatiana konan mín erum að reyna allt til þess að flytja til þessa lands þar sem okkur er ætlað að verja ævi okkar saman. Ísland er okkur allt,“ skrifar Rossi, sem hefur komist í kynni við fjölda Íslendinga vegna áhuga síns á landinu og Víkingi.

Rossi skrifar svo til þjálfara og leikmanna Víkings og hvetur þá til að leggja allt í sölurnar í síðustu fjórum leikjum sínum á tímabilinu. Stuðningsmennirnir muni standa við bakið á þeim hvað sem á dynji.

Pistill Rossis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert