KSÍ í viðræðum við EA Sports

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu.
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu. AFP

Knattspyrnusamband Íslands hefur hafið viðræður við bandaríska tölvuleikjafyrirtækið EA Sports um að íslenska karlalandsliðið verði með í tölvuleiknum FIFA 18.

„Það hafa verið opnar og uppbyggjandi viðræður í dag um að íslenska karlalandsliðið verði í FIFA 18. Jafnframt lagði ég fram þá eindregnu ósk að kvennalandsliðið yrði líka í leiknum,“ segir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.

Miklar athygli vakti í gær þegar fram kom að KSÍ hefði hafnað tilboði EA Sports um að landsliðið yrði í FIFA 17, sem kemur út á næstunni, vegna þess að það var ekki nógu hátt.

Frétt mbl.is: KSÍ hafnaði því að vera í FIFA 17

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ. mbl.is/RAX

Engar upphæðir verið ræddar

Aðspurður segir Geir að ekki sé byrjað að ræða peninga. Hann segir að forsvarsmenn EA Sports hafi ekki verið fúlir yfir því að KSÍ hafi hafnað tilboði þeirra vegna FIFA 17. „Þeir gera sér grein því fyrir að þetta var á síðustu stundu sem þeir lögðu fram tilboðið um að vera í leiknum og að þeir hefðu mátt standa betur að málum.“

Hann tekur fram að peningarnir hafi aldrei verið aðalatriðið heldur að rétt væri staðið að málum og allt saman rætt með góðum fyrirvara.  „Við höfum aldrei verið ósveigjanlegir í samningum. Við viljum bara að það sé talað við okkur á eðlilegan hátt.“

„Viðbrögðin voru sterk“ 

Margir voru ósáttir við að KSÍ hafi hafnað tilboði EA Sports. Hann segir viðbrögðin hafa komið sér nokkuð á óvart. „Maður þekkir þennan heim bara ekki nógu vel. Viðbrögðin voru sterk og ég skil það að íslenskir spilarar séu óánægðir. En í þessu eins og öðru verða hlutirnir að ganga sinn rétta farveg. Okkur var ekki boðið að vera með konurnar en við viljum að þær verði með í leiknum, enda er landsliðið þeirra í fremstu röð,“ segir Geir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka