Sándor kvaddi í Akureyrarslagnum

Sándor Matus fer af velli í síðasta sinn þar sem …
Sándor Matus fer af velli í síðasta sinn þar sem þjálfarar beggja liða tóku á móti honum, Srdjan Tufegdzic, fyrrum samherji hans hjá KA, og Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Þórs. mbl.is/Skapti

Knattspyrnumarkvörðurinn reyndi Sándor Matus, sem hefur leikið með Akureyrarliðunum Þór og KA undanfarin þrettán ár, hefur ákveðið að leggja hanskana á hilluna og hann gerði það í gær þegar hann fékk heiðursskiptingu í viðureign liðanna í lokaumferð 1. deild karla á Þórsvellinum.

Sándor, sem verður fertugur í lok október, kom til KA frá ungverska liðinu Pésci Macsek í ársbyrjun 2004 og hefur verið á Akureyri síðan. Hann varði mark KA samfleytt í tíu ár, fyrsta tímabilið í úrvalsdeild en hin níu árin í 1. deild. Sándor færði sig síðan um set á Akureyri og var að ljúka sínu þriðja tímabili með Þórsurum.

Samtals lék hann 264 deildaleiki með KA og Þór, 204 með KA og 60 með Þór, og eitt tímabil með hvoru félagi í úrvalsdeildinni.

Sándor var hylltur af stuðningsmönnum beggja liðanna þegar hann fór af velli eftir 60 mínútna leik en þá kom í hans stað Aron Birkir Stefánsson, 17 ára markvörður sem hefur leikið með U17 ára landsliði Íslands og spilað sinn þriðja leik í 1. deildinni á þessu tímabili. Hann hefur notið leiðsagnar Sándors síðustu árin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert