„Þetta er draumur að rætast“

Ana Victoria Cate úr Stjörnunni með boltann í vítateig FH …
Ana Victoria Cate úr Stjörnunni með boltann í vítateig FH í leiknum í dag. mbl.is/Eggert

„Ég trúi þessu ekki ennþá. Þetta er bara draumur að rætast og mér finnst ég ennþá sofandi,“ sagði Ana Victoria Cate, leikmaður Stjörnunnar, dreymin á svip þegar mbl.is tók hana tali stuttu eftir að liðið varð Íslandsmeistari með 4:0-sigri á FH í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu.

Sjá frétt mbl.is: Stjarn­an Íslands­meist­ari í fjórða sinn

Þetta var þriðja tímabil hennar hér á landi, en hún spilaði fyrst hér sumarið 2014 og þá einmitt með FH þegar liðið féll. Í fyrra skipti hún yfir til Stjörnunnar og fagnaði bikarmeistaratitli, en segir Íslandsmeistaratitilinn vera skrefinu framar.

„Já, það er meira á bak við titilinn þegar það eru átján leikir að baki honum en ekki einhverjir fjórir eins og í bikarnum. Hér eru allir leikir jafn mikilvægir og þessi titill skiptir mig meiru,“ sagði Ana og hrósaði liðsheildinni í hástert eins og fleiri leikmenn sem mbl.is tók tali eftir sigurinn í dag.

Frábærir leiðtogar sem héldu liðinu saman

„Það hefur mikið gengið á hjá liðinu, hvort sem það eru meiðsli eða óléttur. Allt sem hefði getað komið fyrir gerðist en við risum alltaf upp í hverjum einasta leik. Við héldu markmiðinu alltaf uppi og það skipti engu máli hver var að spila og hverjir voru á bekknum eða gátu ekki spilað – við gerðum þetta allt saman,“ sagði Ana.

„Viðhorfið í liðinu er alveg frábært og allir leikmenn voru mjög ákveðnir í átt að markmiðinu. Við gerðum hlutina fyrir hverja aðra, það var ekki einhver einn einstaklingur sem hefði getað þetta. Og leiðtogahæfnin í liðinu er einnig mögnuð, Adda [Ásgerður Stefanía] og Harpa héldu öllum saman þegar fólk bjóst við því að við myndum brotna. En þær héldu okkur á réttri braut,“ sagði Ana Victoria Cate í samtali við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert