Erum frá Íslandi og vitum að það getur allt gerst

Hjörtur Hermannsson á landsliðsæfingu í Annecy í Frakklandi í sumar.
Hjörtur Hermannsson á landsliðsæfingu í Annecy í Frakklandi í sumar. AFP

Hjörtur Hermannsson verður í eldlínunni með U21 árs landsliði Íslands í knattspyrnu á morgun þegar liðið mætir Skotum í næstsíðasta leiknum í undankeppni Evrópumótsins. Síðasti leikurinn er svo gegn Úkraínu á þriðjudag og með sigri í báðum leikjunum mun Ísland tryggja sæti sitt á EM.

„Þetta leggst vel í mig, fyrir utan leiðindaveðurspá. En við ráðum því ekki og við komum vel stemmdir til leiks,“ sagði Hjörtur þegar mbl.is ræddi við hann á hóteli landsliðsins í dag. Eins og Hjörtur segir þá er spáð leiðindaveðri þegar flautað er til leiks klukkan 15.30 á morgun og það gæti haft áhrif.

„Við mætum klárir til leiks alveg sama hvernig veðrið verður. Og hvort sem úr verður sigur eða tap þá munum við ekkert skýla okkur bak við veðrið. Við vitum að við erum frá Íslandi og það getur allt gerst. Við förum bara á eftir þessum þremur stigum,“ sagði Hjörtur.

„Við erum nú góðir í fótbolta í þessum hópi þannig að við myndum gjarnan vilja betri aðstæður. Við höfum náð góðum árangri með sterkum varnarleik í þessari keppni þannig að ég held að þetta verði bara barátta á morgun. Við erum svo sem ágætir í því líka,“ sagði Hjörtur.

Íslenska liðið þarf ekki að treysta á hin liðin í riðlinum til þess að tryggja sæti sitt á EM heldur geta alfarið treyst á sjálfa sig og strákarnir eru staðráðnir í því að klára dæmið.

„Við vitum bara að sex stig úr þessum tveimur síðustu leikjum tryggir okkur sæti á EM. Við stefnum því ótrauðir á þau og höfum sýnt alla þessa keppni að við erum að sækja stig. Nú þarf því bara að klára þetta og það er stefnan,“ sagði Hjörtur.

Var að leita eftir meiri pressu

Hjörtur var í íslenska landsliðshópnum sem var á EM í Frakklandi í sumar, en kom þó ekki við sögu. Hann skipti um lið í kjölfarið og hefur verið fastamaður hjá danska úrvalsdeildarliðinu Brøndby eftir að hafa áður spilað með varaliði PSV.

„Mér hefur líkað þetta ljómandi vel, ég kem þangað eftir gott sumar með strákunum í Frakklandi og fullur sjálfstrausts. Það tók smá tíma að ná upp formi en eftir að ég fékk tækifærið í annarri umferð hef ég ekki litið til baka. Ég hef verið fastur byrjunarliðsmaður í öllum leikjum og við höfum verið að sækja góð úrslit,“ sagði Hjörtur, en liðið er í öðru sæti deildarinnar.

Hjörtur segir töluverðan mun á því að spila í dönsku úrvalsdeildinni miðað við í hollensku B-deildinni, en þar spila varalið margra þeirra liða sem spila í efstu deild.

„Það er töluverður munur. Varaliðin þurfa ekki endilega að sækja úrslit heldur meira hugsað um að þróa sinn leik og hafa gaman. En í úrvalsdeildinni snýst þetta um að sækja úrslit og ef maður stendur sig ekki þá missir maður sæti sitt í liðinu og maður fær að heyra það hjá stuðningsmönnunum,“ sagði Hjörtur. Hann segir þessa pressu hafa verið nauðsynlega fyrir sig.

„Pressan er því mesti munurinn og það var það sem ég var að leita eftir á þessum tímapunkti á ferlinum, ég þurfti það til þess að geta tekið næsta skref. Persónulega hefur þetta verið frábært og þetta er einstakt tækifæri til þess að þróa mig áfram sem fótboltamann,“ sagði Hjörtur Hermannsson við mbl.is í dag.

Hjörtur Hermannsson var í hópi A-landsliðsins á EM í sumar.
Hjörtur Hermannsson var í hópi A-landsliðsins á EM í sumar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is