Get leyst allar þessar stöður vel

Birkir Bjarnason var á miðjunni í sigrinum á Tyrkjum í …
Birkir Bjarnason var á miðjunni í sigrinum á Tyrkjum í síðasta leik og stóð sig afar vel. mbl.is/Ófeigur

„Heimir [Hallgrímsson] gerir það sem hann telur best fyrir liðið. Það skiptir ekki miklu máli fyrir mig hvar ég spila,“ sagði Birkir Bjarnason sem gæti átt eftir að leika sem annar tveggja framherja Íslands í toppslagnum við Króatíu í undankeppni HM í knattspyrnu í Zagreb á morgun kl. 17.

Birkir spilar alla jafna sem vinstri kantmaður landsliðsins en var á miðjunni í síðasta leik gegn Tyrkjum, þegar Aron Einar Gunnarsson tók út leikbann, og þótti standa sig afar vel. Nú gæti svo farið að Birkir yrði með Jóni Daða Böðvarssyni í fremstu víglínu gegn hinu gríðarsterka liði Króata, í fjarveru framherja á borð við Alfreð Finnbogason og Kolbein Sigþórsson.

„Ég geri bara mitt besta í því hlutverki sem liðið þarf á að halda. Ég hef spilað frammi, úti á báðum köntum, á miðjunni og meira að segja sem hægri bakvörður aðeins í þessu landsliði. Ég hef spilað allar þessar stöður og get leyst þær allar vel að mínu mati,“ sagði Birkir.

Erum gjörbreytt lið í dag

Birkir var eins og flestir leikmenn landsliðsins með í leiknum við Króatíu fyrir þremur árum, þegar Króatar unnu 2:0 hér á Maksimir-leikvanginum og tryggðu sér sæti á HM í Brasilíu. Ísland virtist ekki eiga neinn möguleika í þeim leik en Birkir segir margt hafa breyst síðan þá:

„Við erum allt annað lið í dag og lærðum alveg gríðarlega mikið af þessum leik. Við áttum ekki okkar dag þá, og þá verður þetta mjög erfitt gegn svona sterku liði. En þetta er breytt í dag, við erum orðnir miklu betri og reyndari og í raun gjörbreytt lið.“ Hann segir Króata hins vegar vissulega ógnarsterka:

„Þetta er gríðarlega sterkt lið með leikmenn úr bestu félagsliðum heims. Miðjan þeirra er sérstaklega góð, með frábæra leikmenn. En við höfum spilað á móti frábærum leikmönnum og frábærum liðum áður þannig að þetta ætti ekki að vera neitt nýtt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert