Gott að vita af stuðningi fólks

Viðar Örn Kjartansson gæti átt eftir að leysa Alfreð Finnbogason …
Viðar Örn Kjartansson gæti átt eftir að leysa Alfreð Finnbogason af hólmi. mbl.is/Golli

„Ég er hungraður eins og alltaf í að fá tækifæri. Ef ég fæ tækifæri núna, hvort sem það verður í byrjunarliði eða sem varamaður, þá er ég klár,“ sagði framherjinn Viðar Örn Kjartansson þegar hann ræddi við mbl.is fyrir æfingu Íslands í aðdraganda leiksins við Króata í undankeppni HM í knattspyrnu.

Liðin mætast á Maksimir-leikvanginum kl. 17 á morgun og svo gæti farið að Viðar fengi í fyrsta sinn tækifæri í byrjunarliði Íslands í mótsleik. Framherjarnir Alfreð Finnbogason, Kolbeinn Sigþórsson og Björn Bergmann Sigurðarson eru allir meiddir og óljóst hver mun leika með Jóni Daða Böðvarssyni í fremstu víglínu. Viðar virðist eiga dyggan stuðningsmannahóp sem hefur kallað eftir því á samfélagsmiðlum að hann komi inn í byrjunarliðið:

„Fólk kannski horfir á síðustu ár hjá mér þar sem ég hef skorað mikið af mörkum með mínum félagsliðum, og heldur kannski að maður myndi nýta sénsinn ef maður fengi hann á morgun. Það er gott að vita af stuðningi fólks, en þetta er undir þjálfurunum komið og þeir stilla upp því liði sem þeir telja líklegast til að vinna leikinn. Það vantar marga framherja og ef ég fæ tækifæri næ ég vonandi að nýta það, en þetta er erfiðasti leikurinn í riðlinum,“ sagði Viðar fyrir æfingu í dag.

Höfum unnið gríðarlega sterk lið

Viðar varð markakóngur í Noregi 2014 og endaði næstmarkahæstur í sænsku úrvalsdeildinni í ár, þrátt fyrir að hafa verið keyptur til Maccabi Tel Aviv í lok ágúst. Hann hefur skorað 3 mörk í 7 deildarleikjum í Ísrael.

„Ég tel mig hafa spilað mjög vel síðustu vikur en ég er ekki búinn að skora nóg, alla vega í síðustu fjórum leikjum. Það gerist kannski ekki oft en ég tel mig vera að spila mjög vel samt sem áður,“ sagði Viðar. Það virðist hins vegar hægara sagt en gert að skora mörk gegn ógnarsterku liði Króata, á þeirra heimavelli:

„Það verður kannski ekki mikið af mörkum skorað, þetta verður taktískur leikur, en ég hef mikla trú á að við náum í góð úrslit. Þetta lið er á góðum degi eitt það sterkasta í Evrópu, en við höfum unnið gríðarlega sterk lið og náð góðum úrslitum. Það er mikil hvatning fólgin í því að spila svona leik og við viljum allir fá að taka þátt í því,“ sagði Viðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert