Ísland þarf að brjóta nóvemberísinn

Ísland náði jafntefli gegn Króatíu á heimavelli í nóvember 2013, …
Ísland náði jafntefli gegn Króatíu á heimavelli í nóvember 2013, öðru tveggja jafntefla sinna í mótsleik í nóvember. mbl.is/Ómar

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu þarf að brjóta „nóvemberísinn“ ætli það sér að sitja á toppi I-riðils í undankeppni HM um áramótin. Ísland hefur aldrei unnið mótsleik í nóvember, í níu tilraunum í gegnum tíðina, en fær tíunda tækifærið gegn Króötum í Zagreb á morgun.

Í þessum efnum skiptir auðvitað miklu máli að átta af leikjunum hafa verið á útivelli, enda er alla jafna reynt að forðast það að spila landsleiki á Íslandi að vetri til. Eini heimaleikurinn í nóvember var fyrri umspilsleikurinn við Króata árið 2013, um sæti á HM, sem endaði með markalausu jafntefli.

Fyrir utan jafnteflið við Króata hefur Ísland einu sinni náð jafntefli í nóvember, 0:0 gegn Írum í undankeppni HM 1998. Sjö leikir hafa hins vegar tapast; 2:1 gegn Wales (HM ´86), 3:1 gegn Frakklandi (EM ´92), 2:1 gegn Sviss (EM ´96), 1:0 gegn Unverjalandi (EM ´96), 3:0 gegn Danmörku (EM ´08), 2:0 gegn Króatíu (HM ´14), 2:1 gegn Tékklandi (EM ´16).

Króatar kunna aftur á móti aldrei betur við sig en í nóvembermánuði, segir króatíski fjölmiðillinn 24sata. Króatía hefur leikið 15 mótsleiki í nóvember og aðeins tapað einum þeirra, gegn Makedóníu 2007 þegar Króatar fengu að vita í hálfleik að þeir væru þegar öruggir um sæti á EM. „Það er engin tilviljun að við séum svona góðir í lok ársins. Þá eru okkar lykilmenn að ná sínu rétta formi,“ sagði Otto Baric, sem stýrði Króötum meðal annars til sigurs á Slóvenum í EM-umspili í nóvember 2003.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert