Vitum allt um Íslendinga

Ivan Rakitic er einn af lykilmönnum króatíska liðsins og gegnir …
Ivan Rakitic er einn af lykilmönnum króatíska liðsins og gegnir einnig mikilvægu hlutverki hjá Barcelona. AFP

„Við vitum allt um Íslendinga. Þeir náðu frábærum úrslitum á EM, við þekkjum þeirra stíl og styrkleika, og munum reyna að nýta veikleikana,“ sagði Barcelona-maðurinn Ivan Rakitic, miðjumaður króatíska landsliðsins, á fréttamannafundi í Zagreb í dag.

Rakitic sat fyrir svörum á Maksimir-leikvanginum þar sem leikur Króata við Íslendinga í undankeppni HM í knattspyrnu fer fram á morgun kl. 17 að íslenskum tíma.

„Við reynum að spila eins vel og við getum. Því miður verða stúkurnar tómar en við erum á heimavelli og eigum að vera upp á okkar besta í þessum leik,“ sagði Rakitic.

Rakitic var í liði Króata sem vann Ísland í umspili um sæti á HM fyrir þremur árum. Þá var hann leikmaður Sevilla en í dag leikur hann með Spánarmeisturum Barcelona. Telur hann króatíska liðið betra nú en síðast þegar það mætti Íslandi?

„Vonandi erum við betri en fyrir þremur árum. Það er langur tími. Við höfum allir tekið skref fram á við, og Íslendingar líka. Okkar lið er á sínum besta aldri og í góðum takti, og við höfum náð góðum úrslitum, en þetta verður erfitt og við þurfum að vera upp á okkar besta,“ sagði Rakitic. Aðspurður hvað helst bæri að varast þegar verið væri að verjast íslenska liðinu svaraði hann:

„Allt liðið er helsti styrkur Íslands. Þeir eru vel skipulagðir og agaðir og þetta verður mjög erfitt. Þeir eiga auðvitað 2-3 leikmenn sem spila með góðum liðum en liðsheildin er helsti styrkleiki þeirra. Liðið spilar með alla menn á bak við boltann svo það er erfitt að sækja gegn þeim, og þetta snýst um að við spilum okkur í gegnum þá en séum ekki að elta þá,“ sagði Rakitic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert